145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og lýsa undrun á því að ráðherrann sé ekki kominn. Honum getur ekki hafa dvalist svo hraustlega í Fríhöfninni á leiðinni í gegnum flugstöðina að það útskýri fjarveru hans í þingsölum. Ég rakti það áðan að ég er að fara að flytja fyrstu ræðu mína í þessu máli. Það hefur ekkert verið gert með neinar af þeim ábendingum eða athugasemdum sem ég setti fram um málið þegar það var flutt á síðasta þingi í endurflutningi þess nú. Mér finnst lágmark að eiga orðastað um það við hæstv. ráðherra og fá að heyra frá ráðherranum af hverju ekki er búið að gera neitt með þessar athugasemdir. Þar voru færð ítarleg rök fyrir því og vísað í forsögu meðferðar löggjafar um Þróunarsamvinnustofnun, af hverju lagaumbúnaðurinn væri með þeim hætti sem hann er nú. Það er einfaldlega ófært að bjóða okkur upp á það að tala hér í tóm þegar stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) er annars vegar. Hann verður að eiga rökræðu við minni hlutann á Alþingi.