145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að forseti fundi með þingflokksformönnum um vinnulag nefndarinnar í þessu máli. Ég vil fá svör við því frá forseta hvort hann telji eðlilegt að málsmeðferð sé með þeim hætti að umsagnarfresti ljúki, daginn eftir sé boðað að taka eigi málið út, því þó frestað um einn dag og málið tekið fyrir á óhefðbundnum tíma til að rífa það út án umfjöllunar og án þess að gera svo lítið að hlusta á þá nefndarmenn sem óska eftir frekari gestakomu. Þetta er ekki í lagi, virðulegi forseti. Ég vil fá rannsókn og athugun á því hvað býr þarna að baki. Ég vil fá að heyra viðhorf forseta til þessarar málsmeðferðar. Í mínum huga er hún ekki í lagi og í hugum allra okkar þingmanna sem eru í minni hluta er hún ekki í lagi vegna þess að við eigum rétt á því að eðlilega sé fjallað um mál. Það að taka tvo daga í það (Forseti hringir.) og á þann hátt sem gert var er óeðlilegt. Ef þetta eru ný stjórnmál sem boðuð eru af hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þá segi ég nei takk.