145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom ágætlega inn á það í ræðu minni hér áðan að mörkin milli þróunarsamvinnu og friðargæslu til dæmis, barátta okkar í loftslagsmálum o.s.frv. — þau eru mjög óskýr orðin þessi mörk, þetta tengist allt meira og minna með einum eða öðrum hætti.

Ég hugsa til dæmis að ef árangur næðist í París í næsta mánuði væri það á endanum eitt það besta sem gæti gerst fyrir þróunarlöndin að við tækjum okkur saman um að berjast gegn loftslagsvánni, eyðimerkurmyndun o.s.frv. Yfir allt þetta erum við einfaldlega að reyna að fá betri yfirsýn. Við teljum að við getum unnið betur að málaflokknum í heild.

Í öllum þessum málum yrðum við með þetta allt á einum stað. Það er ekki þannig, enda kemur það hvergi fram, að þróunarsamvinna eigi að gjalda fyrir annað. Við erum einfaldlega styrkja alla þessa þætti með því að ganga þessa leið.