145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Málið er nánast samhljóða máli sem var lagt fram á síðasta þingi og var ekki lokið í vor.

Rétt eins og þegar málið var til umfjöllunar er ég þeirrar skoðunar að skynsamlegast væri málsins vegna að draga það einfaldlega til baka. Málið er þannig statt núna að hæstv. ráðherra ítrekar það hér í andsvörum að hér sé fyrst og fremst um stjórnsýslubreytingu að ræða, það snúist um að verkefnin séu eftir sem áður fyrir hendi en fari fram inni í ráðuneytinu í stað þess að vera sinnt hjá stofnun. Við erum að vísu ósammála um þann skilning því mín afstaða er eindregið sú að þarna sé um eðlisbreytingu að ræða, miklu alvarlegri og stærri. Það sem er óskiljanlegt í stöðu málsins er sá þungi sem hæstv. ráðherra leggur í málið ef það er svona ómerkilegt. Ef þetta snýst bara um að færa einhverja skrifstofu og vinna einhver verkefni frekar í ráðuneytinu en í stofnun, af hverju er málið þá komið þar á Alþingi fyrir það fyrsta að meirihlutaflokkarnir virðast hafa bundist einhvers konar fastmælum um að málið mætti ekki snerta í nefnd, það ætti að fara ósnert í gegnum nefndina og óbreytt frá því sem var í fyrra? Það er á málinu það yfirbragð að pólitískur þungi í því sé gríðarlegur.

Ég mundi hafa samúð með slíku ef um væri að ræða eitthvað sem tengdist stjórnarsáttmálanum eða landsfundarsamþykktum Framsóknarflokksins eða einhverjum stórum baráttumálum stjórnarflokkanna, og menn settu undir sig hausinn og tækju umræðuna en lykju henni svo með atkvæðagreiðslu á Alþingi þar sem meiri hluti kæmi fram við atkvæðagreiðslu. Hvernig þetta mál er gert að þessu mikla flaggskipi ráðherrans annars vegar og ríkisstjórnarflokkanna hins vegar er mér, sem hef haft gaman af að íhuga og horfa á stjórnmál lengur en ég man eftir mér, algerlega óskiljanlegt. Ég hef oft séð ráðherra taka slagi um stór pólitísk mál en ekki eitthvað sem þeir telja sjálfir að snúist um hvar skrifstofa eigi að vera. Mér finnst það stórskrýtið.

Ég hef ekki enn þá fengið skýringar á þessu. Ráðherrann segir bara: Það var gerð úttekt og svo fengum við Þóri Guðmundsson til að skoða og komumst að þeirri niðurstöðu að hann væri með fína tillögu og við ætlum að gera hana að okkar. Það eru rökin.

Það sem stendur út af og ég mundi vilja biðja hæstv. ráðherra hvort sem er í andsvörum eða hugsanlega í annarri ræðu síðar í kvöld eða seinna í vikunni eftir atvikum að svara því hvers virði hann telji það vera að hafa málaflokk eins og þennan í ágreiningi. Þróunarsamvinnumál eiga í eðli sínu ekki að vera flokkspólitísk mál, þetta er ekki svoleiðis málaflokkur, þetta er málaflokkur sem við höfum mótað okkur sameiginlega afstöðu um, það hafa allir utanríkisráðherrar lagt upp úr því að þverpólitísk sátt væri um ákvarðanir í þessum málaflokki. Og af hverju er það? Vegna þess að það er hluti af sjálfsmynd okkar hvernig við tökum þátt í þróunarsamvinnu sem samfélag og þjóð. Það á ekki að vera eitthvað sem við kjósum um með látum á fjögurra ára fresti. Þetta á að vera sáttmáli sem liggur miklu dýpra í sjálfsmynd okkar og vitund en svo að það eigi skilið að því sé rykkt til í pólitískum leik. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sem hélt ræðu í 1. umr. um málið orðaði það sem svo að ekki ætti að skakast með stofnanir að óþörfu. Ég held að það geti stundum átt við að færa stofnanir og breyta útliti þeirra, verkefnum, inntaki og samspili við ráðuneyti og svo framvegis, en það þurfa að vera rök fyrir því og í þessum málaflokki tel ég afar mikilvægt að leggja ekki upp í deilur.

Ég tók eftir því í andsvörum hjá hæstv. ráðherra að hann taldi engin þau rök hafa komið fram í umræðunni sem gæfu tilefni til að setjast yfir málið að nýju, þ.e. annaðhvort kalla það aftur til nefndar án þess að ljúka mælendaskrá eða kalla það inn milli 2. og 3. umr. og skoða það eða eins og gert var og ég nefndi áðan í andsvörum þegar um var að ræða kerfisáætlun raforkuflutninga. Þá voru töluverð átök í þingsal og niðurstaðan varð sú að hv. þingmaður, þá formaður atvinnuveganefndar — og við höfum aldeilis eldað grátt silfur í gegnum okkar pólitísku samvistir — tók að því frumkvæði, auðvitað í samtali við sinn ráðherra og ráðherra málaflokksins, að setjast yfir hvort væri hægt að ná betri lendingu í málinu, betri sátt. Það var gert ekki síst vegna þess að um var að ræða stórar ákvarðanir sem snerust um skipulagsmál á hálendinu, tengsl við fjöldann allan af sveitarfélögum og uppbyggingu flutningskerfis raforku sem er gríðarlega mikilvægt mál. Það tókst að mínu mati að bæta málið umtalsvert. Ég greiddi ekki atkvæði með málinu þegar það gekk til atkvæða hér í lokin. En við töldum það vera umtalsvert betra. Við vorum sammála um það í minni hluta og meiri hluta að málið hefði haft gott af þessum sviptingum og að við settumst yfir það. Mér finnst að við eigum oftar að hafa kjark í að viðhafa slík vinnubrögð.

Stundum er sagt að við höfum ekkert lært af hruninu. Það er vinsæll frasi. Hér sé meirihlutaræði og við höfum heyrt hæstv. fjármálaráðherra tala um að meiri hlutinn ráði og svo framvegis. En við megum ekki gleyma því að við eigum nokkur góð dæmi um að vinnubrögð geta verið öðruvísi. Það er ekki endilega á kostnað málanna, inntaksins í málunum. Ég nefndi kerfisáætlun áðan og svo eru það náttúruverndarlög, sem er líka löggjöf sem varðar stærri hagsmuni en hefðbundnar kollsteypur milli kosninga. Og síðast en ekki síst útlendingalög sem eru líka stór og breiður málaflokkur. Mér finnst að í öllum þessum tilvikum sé unnið þverpólitískt, þó með mismunandi hætti sé. Þegar útlendingalög eru annars vegar leggur ráðherrann sjálfur upp í þann leiðangur undir því flaggi að telja málaflokkinn það dýrmætan að það beri að nálgast hann þverpólitískt. Auk þess hefur sú vinna verið unnin í mjög nánum tengslum við þá sem þurfa að lúta löggjöfinni, ef svo má að orði komast, og þá sem eru rannsakendur í málaflokknum í háskólaumhverfinu, lögfræðinga í málaflokknum, Rauða krossinn, lögregluna og fleiri aðila. Það er auðvitað ekki þannig að niðurstaða svoleiðis vinnu sé með því móti að einhver fái allt sitt fram. En ég er sannfærð um að málinu er fyrir bestu að það sitji það vel að það sé ekki rifið upp á fjögurra ára fresti. Í tilviki náttúruverndarlaga gerðist þetta ekki fyrst hjá ráðherranum heldur frekar í vinnunni í þinginu og tókst afar vel til undir lokin að ljúka vinnunni, en með töluvert löngu tilhlaupi. Svo er það dæmið sem ég rakti áðan með kerfisáætlunina. Þetta eru allt saman dæmi um að menn stíga fram og sýna ákveðinn pólitískan kjark því það er málinu til góðs að vinna með þessu móti. Ég hef stundum hugsað að þótt ég standi hér sem þingmaður flokksins á Alþingi sem lengst er til vinstri og ætti þess vegna ekki að vera sérstaklega annt um miðjuna, þá sé gott í stórum málaflokkum að leiða saman öll sjónarmið eins og í skipulagsmálum og útlendingamálum og málum af því tagi, það geri þeim gott. Það snýst líka um ákveðinn stöðugleika í samfélaginu, um réttaröryggi og ekki síst í málaflokkum sem snúast um ákvarðanir sem eru teknar til mjög langs tíma, til að mynda í skipulagsmálum. Þegar einn tæpur meiri hluti í litlu sveitarfélagi tekur ákvörðun um að byggja turn sem byrgir komandi kynslóðum sýn þá má spyrja hvort viðkomandi meiri hluti hafi haft umboð í kosningum til að taka svo róttæka ákvörðun.

Ég fer dálítið vítt og breitt hér, en það sem er kjarninn í ræðu minni og ég vildi að stæði eftir, því ég hef áður talað í þessu máli, bæði í vor og ekki síður í fyrri umræðu þessa máls, eru þessi sjónarmið. Ég tel að það sé svo að margir þeirra sem að málinu koma meirihlutamegin hefðu á einhverjum tímapunktum haft til þess pólitískt þrek að stíga fram og reyna að setja deilurnar niður.

Ég vil síðan segja að í málinu eins og það var lagt fram fyrir ári fylgdi greinargerð og við gerðum allmiklar athugasemdir við tiltekna kafla og tiltekna hluta hennar, ákveðnar setningar sem er eiginlega ekki hægt að komast hjá að kalla dylgjur. Eins og komið hefur fram ber hæstv. ráðherra auðvitað fulla ábyrgð á þeim textum. Ég ætla mér ekki að halda fram að einhverjir aðrir beri ábyrgð á því, mér finnst mikilvægt að pólitísk ábyrgð sé skýr í máli eins og þessu. Um leið þar sem hæstv. ráðherra er hér í hliðarherbergi vil ég minna á að þegar um svona mikil álitamál er að ræða er mikilvægt að ráðherra sé viðstaddur umræðuna. En í greinargerðinni fyrir ári segir, með leyfi forseta:

„Með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið er verið að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tali þá einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.“

Og síðar, með leyfi forseta:

„Með breytingunum næst betri heildarsýn á málaflokkinn og betur verður tryggt að stefnu Íslands í málaflokknum sé framfylgt. Auðveldara verður að móta og framfylgja áherslum Íslands og aukin tækifæri skapast til að hrinda stefnu Íslands í málaflokknum í framkvæmd með markvissari hætti.“

Nú er það svo að ég hefði haldið að ráðherra mundi breyta þessu í greinargerðinni þegar hann legði fram málið að nýju, það kom mér gersamlega í opna skjöldu að það gerði hann ekki. Það sæmir ekki ráðherra að dylgja með þessum hætti um stofnun sem undir ráðuneytið heyrir. Í greinargerðinni með nýja þingmáli ráðherrans er þetta óbreytt stafrétt. Það þýðir að ekki er með nokkru móti hægt að halda öðru fram en að ráðherrann telji afar mikilvægt að þessi sjónarmið séu lögð til grundvallar við afgreiðslu málsins. Þá skil ég þetta sem svo að gagnálykta megi að ráðherrann eigi við: Með því að færa starfsemi ÞSSÍ ekki inn í ráðuneytið er verið að koma í veg fyrir að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takti við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tali þá fleiri en einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi. Það er ómögulegt annað en að gagnálykta sem svo að ráðherra hafi af því mikla og slæma reynslu að Þróunarsamvinnustofnun tali ítrekað annarri röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi en utanríkisráðuneytið. Þetta stendur eftir. Ráðherrann hefur að mínu mati ekki svarað þessu svo fullnægjandi sé.

Ég mundi gjarnan vilja, ef ráðherra á eftir að tala hér aftur eða jafnvel formaður nefndarinnar, spyrja: Hvaða áhætta felst í því að bíða eftir jafningjarýni DAC? Ég heyrði það sem ráðherra sagði áðan um að hann teldi að DAC hefði í raun talað og ekki væri eftir neinu að bíða með það. Gott og vel. Það er sjónarmið. Hann sagði líka að DAC mundi ekki koma með neina tillögu í sjálfu sér heldur frekar einhvers konar úttekt. Gott og vel. Ég trúi því þegar ég heyri hæstv. ráðherra segja það. En ég spyr: Hvað áhætta felst í því ef það er töluvert útbreidd skoðun að það sé til bóta fyrir málið, að bíða eftir úttekt sem er væntanleg innan árs?

Ég er forvitin að vita hvernig þessu öllu saman er háttað. Við höfum rætt það áður í umræðu og ég er orðin vondauf um að það sé einhver heildarstefna varðandi skipulag Stjórnarráðsins hjá hæstv. ríkisstjórn fremur en í mörgum öðrum málaflokkum. Reyndar er óvenju mikið forustuleysi í þessari ríkisstjórn. Maður veit eiginlega ekkert á hvaða leið hún er. Hún skilar sem betur fer heldur ekki málum til þingsins þannig að það sem hún gerir gerir hún meira og minna fram hjá þinginu í alls konar tilfæringum með einkarekstur heilbrigðisþjónustunnar og það að höggva niður framhaldsskólann. Það sem lýtur að samskiptum við þingið er varla sýnilegt nema í málum sem hæstv. ráðherra segir að snúist ekki um neitt nema kerfisbreytingu, en hann er samt tilbúinn að leggja töluvert á sig og hefur greinilega handsalað við formann nefndarinnar að snerta ekki málið heldur dæla því í gegnum þingið með gamaldags yfirgangi. Mér finnst það ekki vera neinum til sóma að vinna þannig.

Við höfum nógan tíma til að bíða eftir skýrslunni 2016 og bíða eftir þeim eftirlitsaðilum og þeim sem best þekkja til til að komast að sem bestri niðurstöðu í þessum dýrmæta og mikilvæga málaflokki. Ég tel að við eigum að gera það. Þessi málaflokkur er einfaldlega of mikilvægur. Það er ekki honum til sóma ef hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson ætlar að vera sá ráðherra sem stefnir þróunarsamvinnu á Íslandi í ófrið.