145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:30]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur að það getur verið mikilvægt að ná sátt í mikilvægum málum sem varða hagsmuni margra. En ekki getur verið að þetta mál sem snýst um formbreytingu, þ.e. hvernig þróunarsamvinnu verður hagað, þ.e. að lítil stofnun með örfáum mönnum verði færð inn í ráðuneyti sem sinnir líka þróunarsamvinnu að hluta, sé slíkt mál að ekki sé hægt að afgreiða það á þinginu nema með einhverri sátt. Við erum búin að ræða þessa formbreytingu samtals í heila viku.

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir var í meiri hluta á síðasta þingi og þar var til umræðu gjörbreyting á íslensku stjórnarskránni. Telur hv. þingmaður að það sé mikilvægt að ná almennri pólitískri sátt um Þróunarsamvinnustofnun en að það skipti engu máli þegar kemur að breytingu á íslensku stjórnarskránni sem knýja átti hér fram með handafli, einföldum meiri hluta, stjórnarskrá sem einu sinni var þó kölluð samfélagssáttmáli? Ég spyr: Er Þróunarsamvinnustofnun mikilvægari í huga hv. þingmanns en stjórnarskráin?