145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þetta frumvarp sé hluti af stærri mynd, sem birtist í áformum núverandi stjórnvalda um framlög til þróunarsamvinnu. Ég held að sú metnaðarlitla framtíðarsýn endurspeglist líka í þessu frumvarpi, að þetta sé eitthvað sem megi fara með, skella inn sem einhverri skrifstofu í ráðuneyti. Þar með er að mínu viti ekki verið að horfa til áframhaldandi þróunar og þroska þeirrar sérþekkingar sem við eigum. En mér finnst þetta ríma við þá áætlun sem við höfum því miður séð. Ég hefði svo sannarlega vonað að það liti öðruvísi út. Við höfum ekki séð endurskoðaða áætlun enn þá á þessu þingi. Það hefði verið við hæfi að leggja hana fram hér samhliða þessu frumvarpi og þá hefðum við bara getað haft heildarmyndina, að við teljum ekki að þetta sé (Forseti hringir.) flaggskipið í okkar utanríkisstefnu. Við lítum ekki á þetta sem okkar frumskyldu í samfélagi þjóðanna.