145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann þar sem hann er jú fyrrverandi hæstv. ráðherra og væntanlega, eins og fram hefur komið í andsvörum hv. þm. Brynjars Níelssonar, með reynslu af svona löguðu, þ.e. að sameina stofnanir og hvað eina.

Ég velti fyrir mér kostnaðinum, því að eins og komið hefur fram var ekki gert ráð fyrir því að yrði frumvarpið að lögum hefði það áhrif á ríkissjóð enda er hinn yfirlýsti tilgangur, ef ég skil rétt, að auka skilvirkni eða því um líkt. Þó hefur ekkert komið fram mér vitandi um einhvers konar óskilvirkni nema þá einhver meintur samskiptabrestur milli starfsfólks ráðuneytis og starfsfólks Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Síðan er karpað hér um það hvað af því er satt og rétt og hversu mikinn brest hafi raunverulega verið um að ræða.

Það sem ég velti fyrir mér er í sambandi við kostnaðinn, burt séð frá biðlaunum og öðrum beinum kostnaði sem gæti hlotist af þessu. Ég spyr: Er hætt við að það lýsi sér í meiri kostnaði ef eitthvað fer úrskeiðis, svo sem ef eitthvað af starfsfólkinu vill ekki fara með? Eða ef breytingarnar leiða til tafa á verkefnum eða þess að verkefni sem áður voru komin á skrið fari í pásu og þurfi svo aftur að fara á skrið eða eitthvað því um líkt. Þegar maður sameinar stofnanir almennt eða dregur þær inn í ráðuneyti, er þá ekki einhver kostnaður sem fylgir þeim breytingum, þ.e. ef breyting á að heita? Með hliðsjón af því að þetta eigi ekki að hafa áhrif á ríkissjóð í sjálfu sér velti ég fyrir mér og óska eftir skoðun hv. þingmanns á því hvort sú staðreynd þýði ekki, þar sem um er að ræða breytingu, að það verði á einhvern hátt kostnaður fyrir starfsemina í formi afkasta sem dæmi. Ef breytingin sjálf (Forseti hringir.) kostar vinnu og tíma.