145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:55]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og ekki síst hugleiðingarnar sem fólust í því. Það var vissulega ánægjulegt fyrir mig og okkur í Bjartri framtíð að hitta skoðanabræður okkar og átta okkur á að þeir eru metnaðarfullir og hafa staðið fyrir metnaðarfullu starfi þegar kemur að þróunarsamvinnu.

Eins og ég minntist á í ræðunni var sá hugsunarháttur svo frískandi fyrir mig, sem hef verið að grautast í þessum málum núna mánuðum saman hérna á Íslandi, að það væri ekki bara siðferðislega gott eða fallega gert að vera myndarlegur í þróunarsamvinnu og stunda almennilega starfsemi til að lyfta upp fátækari samfélögum, heldur þvert á móti væri það hreinlega góður bissness. Það væri jákvætt fyrir landið sem veitir þróunarsamvinnuna, sem gefur peninga og hjálp, að veita aðstoðina. Að það væri ekki hreinn kostnaður heldur fjárfesting.

Það var svo frískandi að fá að heyra það sjónarmið vegna þess að ég hef því miður ekki upplifað það í umræðunni hér á Íslandi. Kannski eru Íslendingar orðnir svona vanir því að hugsa, þar sem við erum hér úti á ballarhafi og höfum þróast tiltölulega seint efnahagslega séð, að við eigum allt gott skilið og að heimurinn skuldi okkur, ekki öfugt. Það þótti mér sérstaklega mikilvægt að fá inn í umræðuna að þetta er fjárfesting, jafnvel fyrir smáríki eins og Ísland.