145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Er ekki lágmark að hæstv. utanríkisráðherra, flutningsmaður málsins, sé hér sjálfur staddur til að kalla eftir umræðu um kvöldfund um málið? Getum við þingmenn treyst því að hægt sé að eiga orðastað við ráðherrann? Það er kunnara en frá þurfi að segja að framkoma hans gagnvart þinginu, þeirri stofnun sem hér á í hlut og umsagnaraðilum hefur lengt mjög umræðuna og spillt fyrir framgangi málsins. Því er ekki að leyna. Ég tek svo bara undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, það er algjörlega þarflaust að fara með þessa umræðu inn í kvöldið því að hér liggur fyrir sáttatilboð sem stjórnarflokkarnir hafa gert við okkur þegar við höfum verið í ríkisstjórn og við höfum gert stjórnarflokkunum þegar þeir hafa verið í ríkisstjórn um erfið deilumál, að við setjum niður deilur um þetta skipulagsatriði sem er langtímamál með þeim hætti að lögin taki einfaldlega gildi á nýju kjörtímabili. Þá nær ráðherrann sínu fram en núverandi stjórnarandstaða hefur færi á því að sækja umboð í þingkosningum til að breyta því áður en það tekur gildi. (Forseti hringir.) Ég held að það mundi sýna ólíkt þroskaðri stjórnunarstíl að fallast á þá klassísku málamiðlun en að keyra inn í kvöldfund um ekki neitt.