145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:46]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að minnast á þær ágætu umræður sem fram fóru í gær um brýn málefni, meðal annars um almenningssamgöngur, sem tónaði vel við sóknaráætlun í loftslagsmálum og losun gróðurhúsalofttegunda, sem er mjög metnaðarfull áætlun sem kynnt var í dag. Þá vil ég nota tækifærið og taka undir með hv. þingmönnum sem ræddu um löggæsluna og fagna sérstaklega að hæstv. ríkisstjórn bregðist við brýnni þörf til eflingar löggæslu í landinu með 400 millj. kr. auknu framlagi. Ég fagna líka þeirri þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum missirum og breyttum áskorunum sem koma meðal annars fram í nýlegri skýrslu ríkislögreglustjóra og í umræðunni hér í gær. Það er augljóst að lögreglan þarf verulega á því að halda að brugðist sé eins og raun ber vitni við þessari þróun, með auknum mannskap og auknu fé til að styrkja almenna löggæslu og til að halda uppi ásættanlegri frumkvæðislöggæslu og eins til að styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar á öllum sviðum.

Hjá mörgum af grunnstoðum okkar og innviðum er aðkallandi fjárþörf. Hæstv. ríkisstjórn hefur vissulega brugðist við í fyrirliggjandi fjárlögum og fleiri málaflokkum. Nefni ég hér heilbrigðismálin þar sem verið er að styrkja og efla heilbrigðiskerfið með aukningu útgjalda til þess málaflokks á flestum sviðum. Sérlega er ánægjulegt að sjá áherslu á heilsugæsluna í þeim efnum.

Það á við um flesta málaflokka að kjarasamningar vega þungt á fjárlögum í heildarútgjöldum en það eru vissulega tækifæri fram undan varðandi efnahagslega stöðu með bættum hag ríkissjóðs og lækkandi skuldastöðu. Viðsnúninginn í uppbyggingu og eflingu grunnstoða og stofnana samfélagsins verður að taka í skrefum og í takt við efnahagslega þróun og aukna getu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna