145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefði verið gaman að fá að nota þá klukkutíma sem okkur er úthlutað til viðbótar til þinghalds í kvöld í þetta mál því það er gríðarstórt og erfitt að fara yfir á svona stuttum tíma. Þetta er stórt mál vegna þess að áhrifin á veðurfar og náttúrufar leiða af sér breytingar á búsetu fólks og geta leitt af sér uppskerubrest og þurrka og þar af leiðandi deilur um lönd og lífsgæði. Slíkar deilur eru oftast undirrót átaka og stríðsátaka sem við þekkjum í heiminum. Það er gríðarlega mikið í húfi að við náum að stemma stigu við þeirri þróun sem nú þegar er orðin. Það er gríðarlega mikið undir. Sem betur fer er mikil almenn vitund um orsök og afleiðingar í loftslagsmálum hér á landi. Í skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands í lok september telja 67,4% aðspurðra mikla þörf á að íslensk stjórnvöld grípi til aðgerða til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum.

Nú hefst næstkomandi mánudag mikilvæg loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París. Þangað er hæstv. ráðherra að fara með erindi okkar Íslendinga. Það er tilefni þessarar umræðu. Markmið ráðstefnunnar er að tryggja að menn nái saman um að hækkun hitastigs andrúmsloftsins verði undir tveimur gráðum að meðaltali. Þó eru aðilar, sérstaklega litlar eyjar eins og t.d. Maldíveyjar og Marshalleyjar sem fara beinlínis undir vatn verði ekkert að gert á komandi áratugum, sem telja að þetta sé of hátt og markið eigi að vera ein og hálf gráða.

Síðan eru fram komnar yfirlýsingar yfir 150 aðildarríkja rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Þar kemur fram sá veruleiki að í raun og veru stefnir í að hækkunin verði nær þremur gráðum. Við erum svo langt frá markmiðinu.

Þess vegna tel ég, og vil spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hennar til þess, að við Íslendingar eigum að vera með í hópi þeirra eyja sem krefjast þess að markmiðið sé ein og hálf gráða frekar en tvær gráður vegna þess að við eigum svo mikið undir því að sporna gegn súrnun sjávar. Við eigum gríðarlega hagsmuna að gæta í sjávarútvegi og afleiðingin af hlýnuninni er súrnun sjávar. Greinin sjálf er farin að hafa af þessu miklar áhyggjur. Hagsmunir okkar eru það miklir að ég tel að við eigum að skipa okkur í flokk með þeim sem krefjast þess að markmiðið sé ein og hálf gráða á Celsíus. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að við gerum það.

Þá vil ég spyrja líka: Hver er stefna ráðherrans í þessu máli? Mun súrnun sjávar og áhyggjur okkar af henni verða tekin upp með einhverjum hætti í París?

Þá vil ég líka nefna að í dag kynnti ráðherra sóknaráætlun um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Ég tel vanta mikið í hana. Það er talað um að hún sé til þriggja ára en hún er ofboðslega götótt. Það má lesa úr henni að hún byggi á aðgerðaáætluninni frá 2010 og því spyr ég hæstv. ráðherra hvort það sé ekki örugglega rétt skilið að aðgerðaáætlunin frá 2010 sé enn í gildi og þetta sé viðbót við hana.

Ég verð líka að segja að hér vantar almenningssamgöngur og annað slíkt. Þá vil ég velta því upp af hverju við unnum ekki þessa sóknaráætlun í sameiningu, þvert á flokka og greinar. Mér finnst samtalið við sveitarfélögin allt of lítið. Til dæmis má segja að Reykjavíkurborg sé að stinga ríkið af þegar kemur að stefnumótun í loftslagsmálum. Þau eru með gríðarlega yfirgripsmikla stefnu í loftslagsmálum. Okkur vantar mælanleg markmið í sóknaráætlunina. Sjávarútvegurinn hefur sjálfur sett sér mælanleg markmið. Þeir hafa talað um að þeir þurfi að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti um 40 þús. tonn til ársins 2030 og er það vel. Það er til viðbótar því sem menn hafa náð hingað til. Ég hefði viljað sjá að við settum okkur frekar mælanleg markmið. Reykjavíkurborg gekk á undan með góðu fordæmi og er að safna saman fyrirtækjum til að standa með sér í að sporna við þessum breytingum. Mér finnst ríkið reka lestina þegar það á að vera í forustu.

Tími dúlleríisaðgerða á þessu sviði er liðinn. Við þurfum að fara að (Forseti hringir.) rífa í handbremsuna og grípa til alvöruaðgerða. Við þurfum að vinna að þessu þverpólitískt og þverfaglega og þétta raðirnar með sveitarfélögunum líka.