145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

fjárveitingar til lögreglu.

[11:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur fyrir sitt leyti samþykkt að láta 400 millj. kr. renna til að styrkja lögregluna í landinu. Nú standa lögreglu- og sýslumannsembættin misvel og sum þeirra glíma við verulegan hallarekstur. Í árslok 2014 var hallinn einmitt tæpar 400 millj. kr. Getur hæstv. innanríkisráðherra staðfest það hér og nú að þær 400 millj. kr. sem bæta á í rekstrargrunn löggæslunnar renni ekki upp í hallarekstur að hluta eða að öllu leyti? Það er afar mikilvægt að fá þetta staðfest því að orðað er svo fallega í textanum með fjárlagatillögunni að við greiningu á lögregluembættum landsins hafi komið fram veikleikar í starfseminni sem brýnt er að mæta.

Þeim veikleikum verður varla mætt á næsta ári með því að greiða niður halla embættanna, eða er það svo?

Í textanum með tillögunni er rætt um að úthlutun fjármunanna eigi að miðast við niðurstöður á úttekt á þjónustu og öryggisstigi. Þjónustustigið grundvallist á útkallaþjónustu, afbrotavörnum og rannsóknum mála, en öryggisstigið er metið af því öryggi sem almenningur getur vænst að njóta og þess öryggis sem lögreglan getur gert kröfu um við framkvæmd hættulegra verka. Í umræðum um tillöguna í fjárlaganefnd kom einnig fram að hæstv. ráðherra lagði áherslu á landamæravörslu og fjölgun ferðamanna við útfærslu tillagnanna.

Hefur hæstv. ráðherra einhverja hugmynd um hvernig skiptingin verður á fjármununum á milli þessara þátta? Telur hæstv. ráðherra að 400 millj. kr. nægi til þess að mæta veikleikum í starfsemi lögreglunnar? Mikilvægast er þó að fá skýr svör frá hæstv. ráðherra um það hvort nýta eigi nýju 400 milljónirnar til að greiða niður halla undanfarinna ára.