145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ekki hægt að segja annað en að maður sé sammála öllum þeim sem hafa tjáð sig hér í dag. Ég tek undir orð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, það var jákvætt að finna fyrir því að það var tekið mark á okkur í utanríkismálanefnd í gær þegar við lögðum til að menn ráðfærðu sig við þingheim áður en svona ákvarðanir yrðu teknar. Því var komið mjög vel og rækilega á framfæri af öllum þeim sem voru í nefndinni meira og minna að það væri mikilvægt að sýna í verki og á borði en ekki bara í orði hug okkar gagnvart kjarnorkuafvopnun.

Mig langaði aðeins að gera að umtalsefni baráttu fyrir bættum kjörum og leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja. Nú höfum við reynt á þinginu síðan ég man eftir, a.m.k. hef ég reynt að standa í því að tryggja að kjör öryrkja og aldraðra yrðu leiðrétt og bætt. Mér finnst mjög mikilvægt að við hugum að því að þeir sem þurfa að fá stuðning eða greitt frá Tryggingastofnun lenda mjög oft í kerfinu, eins og maður segir. Fólk lendir allt of oft í því að kerfið hjálpar því ekki heldur er hreinlega að verja sjálft sig. Ég skora á þingmenn að skoða þingsályktunartillögu Pírata um borgaralaun og kanna hvort ekki sé möguleiki að koma því máli á dagskrá þannig að það geti farið í nefnd þannig að hægt sé að ræða um orsökina en ekki alltaf bara plástrana, hvernig við getum lagað ónýtt kerfi.

Ég skora jafnframt á aðra þingmenn að sjá heimildarmyndina sem rætt var um. Ég komst því miður ekki á hana í gær (Forseti hringir.) en hef mikinn hug á að sjá hana og er spennt fyrir því að fleiri sjái hana líka.


Efnisorð er vísa í ræðuna