145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

371. mál
[15:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Í frumvarpinu er annars vegar að finna breytingar á framangreindum lögum vegna sameiningar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og Náttúrufræðistofnunar Íslands og hins vegar breytingar á ákvæðum er fjalla um staðsetningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og stjórnskipulag hennar.

Í nóvember 2014 tók til starfa stýrihópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem var falið að vinna frumathugun á framlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktunar. Meðal þeirra sviðsmynda sem hópurinn skoðaði var sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Þær meginforsendur sem lagðar voru til grundvallar verkefninu voru að stefna bæri að aðskilnaði á milli rannsóknar- og vöktunarverkefna og stjórnsýslu annars vegar og framkvæmdaverkefna stofnananna hins vegar. Að auki var horft til þess að styrkja og samræma rannsókna- og vöktunarinnviði svo að fyrir lægi skýr sýn á hvaða rannsóknir og vöktun á náttúru landsins teldist rétt að stunda á vegum stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Í niðurstöðum stýrihópsins er að finna tillögur um að sameina Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Náttúrurannsóknastöðin er starfseining með tvo starfsmenn og eiga verkefni hennar mikla samleið með verkefnum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í ljósi niðurstöðu stýrihópsins er í frumvarpi þessu lagt til að þessar tvær stofnanir verði sameinaðar. Ég vil þó taka fram að rannsóknastöðinni er ætlað að vera áfram við Mývatn og ekki er gert ráð fyrir að breyta starfseminni heldur efla hana og skapa henni traustari umgjörð sem hluta af stærri ríkisstofnun.

Slík sameining ætti að verða báðum stofnunum til hagsbóta. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn hefur ekki næga burði ein og sér eigi hún að uppfylla þær margvíslegu stjórnsýsluskyldur sem ríkisstofnunum ber að sinna. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur aðstöðu, búnað og starfsfólk sem þarf til að sinna verkefninu og tryggja stofnanaumgjörð fyrir starfsemina. Með sameiningu er því ekki síst horft til samnýtingar á húsnæði, búnaði og starfsfólki.

Meginmarkmið með sameiningu eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi að efla stefnumótun og áætlanagerð á sviði rannsókna og vöktunar; í öðru lagi að efla rannsóknir á náttúru Mývatns og Laxár og vöktun hennar með kerfisbundnum, tímaháðum mælingum og athugunum á náttúrufari; í þriðja lagi að efla þverfaglegt starf og stuðla að samþættingu verkefna á sviði rannsókna og vöktunar; í fjórða lagi að bæta rannsóknaaðstöðu og auka stuðning við gagnaöflun á Mývatns- og Laxársvæðinu og úrvinnslu sýna; í fimmta lagi að bæta og auka miðlun upplýsinga og þjónustu, meðal annars á grunni upplýsinga um náttúrufar Mývatns og Laxár; í sjötta lagi að auka getu til að uppfylla lagalegar og alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingagjöf; í sjöunda lagi að einfalda og styrkja stofnanaumgjörð, gera stjórnsýslu skilvirkari og bæta tæknilegt stofnanaumhverfi náttúrurannsóknastöðvarinnar.

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn hefur staðið fyrir vöktun og rannsóknum við Mývatn og Laxá í fjóra áratugi. Svæðið laðar að sér fjölda ferðamanna og fóstrar jafnframt mikið mannlíf sem nýtir náttúruauðlindir þess. Því er brýnt að stofnunin haldi áfram að leitast við að standa í fremstu röð og að áfram verði tryggð samfelld vöktun náttúrunnar og að það mikilvæga vísinda- og fræðastarf sem þar fer fram verði styrkt enn frekar.

Í frumvarpinu er einnig að finna breytingar á þeim ákvæðum laga um Náttúrufræðistofnun Íslands sem snúa að staðsetningu stofnunarinnar og stjórnskipulagi hennar. Í gildandi lögum segir að stofnunin geti byggst upp af allt að fimm setrum sem hvert um sig hafi sjálfstæðan fjárhag. Auk seturs í Reykjavík getur ráðherra heimilað eitt setur í hverjum landsfjórðungi. Setrin hafa verið tvö síðan lögin tóku gildi, eitt á Akureyri og annað í Reykjavík sem árið 2010 var flutt til Garðabæjar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá nóvember 2010, um stjórnsýslu- og fjárhagsendurskoðun á Náttúrufræðistofnun Íslands, kemur fram að þáverandi stjórnskipulag stofnunarinnar sé óþarflega flókið miðað við stærð hennar og ábyrgð ekki nægilega skýr. Óeðlilegt sé að setur fái sjálfstæðar fjárveitingar og að forstöðumenn þeirra hafi ákveðið sjálfstæði í stefnumótun og fjármálum. Þetta færi þeim ákveðið vald óháð því valdi og ábyrgð sem forstjóra sé falið af ráðherra. Ríkisendurskoðun taldi óæskilegt að binda stjórn og skipulag stofnana með lögum og reglugerðum og lagði til að setraskiptingin yrði lögð af til að bæta úr annmörkum stjórnskipulagsins og að stofnunin fengi óskipta fjárveitingu. Í kjölfar ábendingar Ríkisendurskoðunar var stjórnskipulagi stofnunarinnar breytt af hálfu Náttúrufræðistofnunar Ísland árið 2005 og setrin lögð niður í reynd. Í staðinn var tekið upp deildaskipulag þar sem forstöðumenn deilda sækja umboð sitt beint til forstjóra stofnunarinnar.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir eru því í fullu samræmi við þá stefnu stjórnvalda að kveða ekki á um stjórnskipulag og skipurit stofnana í lögum um viðkomandi stofnun heldur nota samræmd almenn ákvæði.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.