145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

371. mál
[15:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla fyrst og fremst að gera þann þátt þessa frumvarps sem snýr að breytingu á lögum um verndun Mývatns og Laxár að umtalsefni. Ég sé ekki ástæðu til að hafa miklar skoðanir á því sem snýr að breytingum á skipulagi Náttúrufræðistofnunar Íslands að öðru leyti en því sem það tengist þessari fyrirhuguðu sameiningu RAMÝ og Náttúrufræðistofnunar.

Ég er satt best að segja nokkuð undrandi á því að hæstv. ráðherra skuli flytja frumvarp með þessu innihaldi í ljósi aðstæðna í málinu. Það er kafli í greinargerð frumvarpsins á bls. 5 sem fjallar um samráð. Ég verð því miður að leyfa mér að lýsa þeirri skoðun minni að það sé öfugmæli þegar kemur að samráði við heimamenn á verndarsvæði Laxár og Mývatns. Það ég best veit hefur það samráð farið fram í gegnum einn fund sem starfshópur hélt í septemberbyrjun með fulltrúum sveitarfélaga og Náttúrustofu Norðausturlands. Á þeim fundi, þótt knappur tími væri til stefnu til að undirbúa hann af hálfu heimamanna, lögðu þeir þó engu að síður fram afstöðu sína sem þeir höfðu náð að sammælast um. Hún er algerlega andstæð því sem hæstv. ráðherra leggur til. Sem sagt, það er rík samstaða um það meðal heimamanna, sveitarstjórna á svæðinu og Náttúrustofu Norðausturlands að ekki verði af þessari sameiningu og að rannsóknastöðin við Mývatn verði áfram sjálfstæð stofnun. Það er ekki að ástæðulausu, leyfi ég mér að segja.

Ég held að óumflýjanlegt sé að rifja aðeins upp sögu þessa máls til þess að menn átti sig á hvernig það er vaxið. Lög um verndun Laxár og Mývatns og það ákvæði þeirra meðal annars að sjálfstæð rannsóknastöð skyldi starfa við Mývatn, hún skyldi vera staðsett þar, eru sáttagerð í Laxárdeilunni svonefndu, einhverri hörðustu deilu á sviði umhverfismála og langhörðustu má segja sem fram að þeim tíma hafði orðið á Íslandi. Það voru sögulegir atburðir og mikil tímamót sem áttu eftir að hafa og hafa enn áhrif í þessum málaflokki. Deilan var eins og kunnugt er mjög hörð og þeir sem vilja fræðast betur um hana geta séð um hana ágæta kvikmynd, kvikmyndina Hvell, eða lesið bækur sem skrifaðar hafa verið og meistararitgerðir um þessa deilu. En sem betur fer náðust sættir að lokum milli stjórnvalda og heimamanna. Þær voru innsiglaðar með fundahöldum og veisluhöldum í Ráðherrabústaðnum á sínum tíma. Lög um verndun Laxár og Mývatns voru sett og rannsóknastöðinni komið á fót. Ætíð síðan hafa heimamenn á þessu svæði viljað standa mjög dyggan vörð um þessa sáttagjörð. Þá sjaldan að komið hefur til breytinga á lögunum um verndun Laxár og Mývatns hafa þeir alltaf gert kröfu til þess að við þá væri ekki bara haft samráð um slíkar breytingar heldur væri samkomulag um þær í anda þess að þetta er hluti af sáttagjörð sem var fest í lög og hrint í framkvæmd með tilteknum hætti. Þannig var það til dæmis þegar mörkum verndarsvæðisins var breytt og tilkoma Vatnajökulsþjóðgarðs var að verða að veruleika að þá nálguðust heimamenn málið með nákvæmlega sama hugarfari, að samkomulag skyldi finnast um það hvernig mörkum verndarsvæðisins yrði breytt.

Ég leyfi mér að fullyrða að það sé enn mjög ríkt í hugum heimamanna á þessu svæði að svona sé staðið að málum. Þess vegna hefði ég talið að í ljósi andstöðunnar sem heimamenn komu á framfæri og liggur skýrt fyrir og sveitarfélögin hafa núna fylgt eftir, meðal annars með bréfasendingum til okkar þingmanna kjördæmisins, hefði ráðherra staldrað við. Það eru einfaldlega ekki nægilega veigamiklar röksemdir fyrir því að gera þetta í andstöðu við heimamenn að einhver starfshópur embættismanna hafi komist að þessari ágætu niðurstöðu. Það eru líka efnisleg og sterk rök fyrir því að rannsóknastöðin við Mývatn sé best komin sem sjálfstæð eining. Hún þarf og á að vera á vatnsbakkanum og hvergi annars staðar. Rannsóknastöðinni er algerlega ómissandi starfa sinna vegna að eiga gott samstarf við bændur og veiðimenn í Mývatni og heimamenn og íbúa svæðisins. Öðruvísi gengur ekki upp að vinna að þessum rannsóknum því þar er mikilvæg þekking og vitneskja sem berst jafnóðum í gegnum sambúð heimamanna við lífríki á svæðinu, veiðar í vatninu og svo framvegis. Það er ekki gæfulegt að fara að skapa ágreining þegar ekki er veigameiri þörf en sú sem hér er fram færð.

Heimamenn benda á þann möguleika að efla samstarf rannsóknastöðvarinnar og Náttúrustofu Norðausturlands sem hefur byggst upp með mjög metnaðarfullum hætti á undanförnum árum, er ein stærsta ef ekki stærsta náttúrustofan og hefur verið dugleg við að sækja sér verkefni og fjármögnun, sinnir vöktunarverkefnum og rannsóknum sem liggja mjög nálægt verkefnum RAMÝ, til dæmis vöktunarverkefnum á fuglum á svæðinu. Ég held að það sé kostur sem eigi að skoða og bera saman við annað. Rannsóknastöðin við Mývatn vinnur líka eðli málsins samkvæmt náið með ýmsum sérfræðingum í háskólasamfélaginu, ekkert síður en sérfræðingum á Náttúrufræðistofnun. Á köflum er hér um hreinar grunnrannsóknir í líffræði að ræða, á botndýralífi vatnsins og öðru slíku og helstu sérfræðingar í því eru jafnvel í háskólastofnunum ekkert síður en hjá Náttúrufræðistofnun eða þess vegna náttúrustofunum.

Heimamenn hafa líka haft uppi áform sem ég veit ekki nákvæmlega hvar eru á vegi stödd eða hversu vel umhverfis- og auðlindaráðuneytið er upplýst um þau, sem gæti verið mjög álitlegur kostur, um að sameina á einum stað í einhvers konar miðstöð starfsemi fleiri stofnana sem margar mundu reyndar heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þannig er að á svæðinu í Mývatnssveit eru Vatnajökulsþjóðgarður, Landgræðslan og fleiri aðilar með fulltrúa eða starfsemi sem gæti verið mjög ánægjulegt eða praktískt að sjá sameinast á einum stað. Ég fór yfir það fyrir ekki löngu síðan með sveitarstjóra og oddvita Skútustaðahrepps og þeir upplýstu að þeir væru mjög áhugasamir um hugmyndir af því tagi. Það getur verið mjög vænlegur kostur fyrir litla stofnun og einyrkjastarfsemi eða fáa starfsmenn þótt þeir séu hluti af stærri stofnunum að komast í sambúð við aðra slíka sem vinna á skyldum sviðum og praktísk lausn hvað varðar húsnæði, þjónustu og ýmislegt fleira. Það eru því margir fleiri möguleikar sem mér finnst eiga að skoða áður en menn taka endanlega ákvörðun um að breyta frá því fyrirkomulagi sem nú er.

Ég ætla að leyfa mér að trúa því og þætti vænt um að hæstv. ráðherra staðfesti það að viljinn til að efla rannsóknastöðina við Mývatn sé ekki bara bundinn við að fara þessa leið. Ég ætla rétt að vona að hér sé ekki í uppsiglingu mál af því tagi að menn veifi gulrótum og lofi gulli og grænum skógum en bara ef látið verði að vilja stjórnvalda um skipulagsbreytingar, svona svipað og hefur gerst með Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þar sem hann átti nú að blómgast og dafna sem aldrei fyrr og var allt í einu mikill vilji til að efla hann ef hann væri tilbúinn til að sameinast Háskóla Íslands. En annars virðist það ekki vera í því tilviki. Ég ætla að vona að hér sé ekkert slíkt á ferðinni. Að sjálfsögðu met ég mikils viljann og veit að heimamenn gera það líka til þess að efla rannsóknastarfsemina á svæðinu og rannsóknir á Mývatni og Laxá. Ekki veitir af. Auðvitað hafa menn miklar áhyggjur af ýmsu sem þarna hefur verið að gerast í lífríkinu, svo sem hruni í veiði á bleikjustofninum og að kúluskíturinn er að miklu leyti að hverfa. Það þarf að rannsaka. Okkur ber skylda til þess, ekki bara samkvæmt þessum lögum heldur er hér um Ramsar-svæði að ræða og einhverjar mestu perlur í náttúru Íslands þar sem eru Mývatnssveit og Laxá.

Þá finnst mér, ef sá vilji er til staðar, óháð hvaða aðferð verður nákvæmlega notuð til þess, að minnsta kosti lágmark að aðrir kostir í stöðunni sem heimamenn mæla með séu skoðaðir og bornir saman áður en nokkur endanleg niðurstaða er fengin. Í raun og veru tel ég að þær staðreyndir sem liggja fyrir framan okkur um að þetta er í andstöðu við vilja heimamanna allra sveitarfélaganna á svæðinu og fleiri aðila sé næg ástæða til að staldra við og gera þetta ekki. Það er ekki farsælt að fara með þetta mál fram í ágreiningi við þá. Það er í sögulegu ljósi skoðað í raun og veru ekki rétt því segja mætti að með því væru stjórnvöld að rjúfa að sínu leyti og að hluta til þá sáttagjörð sem setti niður Laxárdeiluna á sínum tíma.

Ég vildi láta þetta koma strax fram við 1. umr. um málið í von um að það leiði að minnsta kosti til þess að menn flýti sér hægt við skoðun þess og afgreiðslu. Væntanlega verður það umhverfis- og samgöngunefnd sem fær málið til skoðunar og það er að sjálfsögðu í góðum höndum þar. En það er mjög mikilvægt og ég legg á það áherslu og hygg að ég tali þar ekki bara fyrir sjálfan mig að minnsta kosti úr þingmannahópi kjördæmisins heldur fyrir hönd fleiri aðila að sjónarmið heimamanna verði höfð í huga og eitthvað með þau gert.