145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

refsingar vegna fíkniefnabrota.

257. mál
[16:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að hv. þingmaður hafi fundið sér svona heppilegt lesefni í frístundum sínum. En varðandi það sem hv. þingmaður spurði að, og ég hafði ekki tækifæri til að svara í mínu fyrra svari, og snýr að burðardýrum, þá er afar mikilvægt að hafa í huga að það geta verið mjög ólíkar ástæður fyrir því að viðkomandi er í þeirri stöðu sem þar birtist. Þegar við förum að skoða það að líta þurfi sérstaklega til breytinga á lögum vegna burðardýra — og nú vil ég taka fram að oft og tíðum eru það ömurlegar aðstæður sem reka menn í það að verða burðardýr — þá þarf að hafa í huga að þegar við ætlum að líta á þetta í lagaumgjörðinni er að ansi mörgu að hyggja.

Við metum það svo að þegar að þeim kemur þá gildi það sama, það þarf að líta á þennan málaflokk í heild og þróun löggjafarinnar í heild. Burðardýrin eru að sjálfsögðu þar undir. Ég get ekki gengið lengra í að svara hvað það varðar á þessum tímapunkti. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði hér áður, og stend auðvitað við það, að þessi málaflokkur er þannig vaxinn að hann einskorðast ekkert við refsilöggjöfina. Það er ákveðin afleiðing af atburðum sem orðið hafa í lífi viðkomandi fólks og er að stórum hluta félagslegur og heilbrigðislegur vandi. Ég held að næstu skref fyrir okkur til þess að huga að þessum málaflokki til lengri tíma sé að taka utan um það.

Það er mikilvægt að vinna starfshópsins birtist okkur vel í innanríkisráðuneytinu þannig að við getum síðan tekið utan um það og velt því fyrir okkur hvaða ljósi hún varpar á þá löggjöf sem undir okkur heyrir og hvernig við getum best brugðist við á þann veg að við náum því markmiði okkar að leysa úr vanda þeirra sem hafa lent í slíkum ógöngum.