145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Kæra afmælisbarn. Til hamingju með daginn, virðulegi forseti.

Ég ætla að nálgast ástand heilbrigðismála úr aðeins annarri átt en hv. þm. Elsa Lára Árnadóttir sem talaði áðan og taldi upp öll afrek ríkisstjórnarinnar á því sviði.

Ég er með í höndunum glænýjan lista frá Landlæknisembættinu, sem kom á vef embættisins núna um helgina, yfir biðlista eftir aðgerðum. Það er satt best að segja afar dapurleg mynd sem þar birtist okkur.

Ef við lítum á miðgildi biðtíma fyrir sex stóra aðgerðarflokka er það þannig að bið eftir skurðaðgerð á augasteini eru 39 vikur, varðandi valdar aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna 41 vika, brottnám legs 14 vikur. Það er eini biðtíminn sem nálgast viðmiðunarmörkin, 90 daga. Gerviliðaaðgerðir á mjöðm eru 31 vika og gerviliðaaðgerð á hné 53 vikur. Þetta er biðtíminn og fjöldi á biðlistum hefur aukist í öllum þessum flokkum nema einum, t.d. voru þeir sem bíða eftir skurðaðgerð á augasteini 2.563 í október 2014 en eru 3.895 núna. Það er aðeins hjarta- og/eða kransæðamyndataka þar sem lítillega hefur fækkað á listunum.

Þetta ástand er auðvitað alveg skelfilegt, virðulegur forseti, og þó svo að vissulega hafi einhverjir fjármunir verið eyrnamerktir því að takast á við biðlistana þá er það eins og dropi í hafið miðað við aðstæður á okkar stærstu heilbrigðisstofnunum þar sem þessar aðgerðir þyrftu og ættu að vera að fara fram.

Þetta er ekki boðlegt fyrir okkur ef við ætlum að reyna að halda því fram að við séum með heilbrigðiskerfi í fyrstu röð. Hvað þá eru þetta aðstæður sem við getum horfst í augu við ef meiningin er að innleiða hér tilskipun Evrópusambandsins um rétt manna til að njóta heilbrigðisþjónustu yfir landamæri án þess að vinna niður þessa biðlista fyrst.

Herra forseti. Því miður er það nú ekki (Forseti hringir.) þannig að það sé sérstök huggun í upptalningum stjórnarliða á afrekum þeirra þegar maður horfist í augu við staðreyndirnar sem opinber gögn bera með sér um ástand heilbrigðiskerfisins.


Efnisorð er vísa í ræðuna