145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[18:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir erum við að takast á við tvennt. Við erum annars vegar að takast á við það að ESA hefur sagt: Það gengur ekki í íslenskri löggjöf að banna og vera með fortakslaust bann við gengistryggingu íslenskra krónulána. Þá eru okkar viðbrögð þau sem birtast í frumvarpinu að segja: Gott og vel, við skulum ekki vera með fortakslaust bann en við ætlum ekki að leyfa slík lán nema samkvæmt þeim ströngu skilyrðum sem er að finna í frumvarpinu. Hins vegar þykir óeðlilegt að hreyfa við lagareglum um gengistryggðu lánin á sama tíma og allt stendur galopið gagnvart erlendum lántökum til neytenda. Þannig er löggjöfin í dag.

Valið sem við stöndum frammi fyrir varðandi erlendu lánin er að draga einhver líkindi á milli reglna um gengistryggingu krónulána og reglna um erlendar lánveitingar til neytenda. Það er gert með þessu frumvarpi. Við gætum að sjálfsögðu valið þann valkost sem mér finnst hv. þingmaður láta skína í, að skipta okkur ekkert af erlendu lántökunum og hafa fyrirkomulagið óbreytt og galopið fyrir neytendur að sækja slík lán samkvæmt ákvörðunum fjármálafyrirtækjanna almennt, en þá kæmu inn í myndina ýmis önnur sjónarmið eins og þjóðhagsvarúðarsjónarmið um það hversu hættulegt það getur verið þjóðarbúinu í heild sinni ef safnast upp miklar skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum sem eru óvarðar í kerfinu og geta leitt til skyndilegs áhlaups á okkar sjálfstæða gjaldmiðil. Við því er verið að bregðast hér. (Forseti hringir.)

Ég tel að við séum að fara skynsamlegan milliveg í því að finna lausn á þessum málum.