145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ágætu ræðu. Ég veit að samgöngumál eru okkur báðum ofarlega í huga og það er eins og þeir málaflokkar sem snúa að innviðauppbyggingu, hvort sem eru samgöngur eða uppbygging ferðamannastaða, séu einhver afgangsstærð hjá þessari ríkisstjórn. Það er alltaf verið að bjarga hlutunum á elleftu stundu þegar allt er komið í óefni. Í þessum fjárauka er verið að setja 1,3 milljarða í nýframkvæmdir og til styrkingar á viðhalds- og vegakerfinu vegna stóraukins ferðamannastraums til landsins og þar velja menn fjóra eða fimm staði til að setja þá upphæð í.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvað honum þyki um svona vinnubrögð, að það sé ekki farið eftir ákveðnum og hefðbundnum ákvörðunarferlum varðandi ráðstöfun á því fjármagni sem þarna um ræðir, að þetta komi svona seint inn og hvað varðar aðkomu þingsins, umhverfis- og samgöngunefndar, hvernig þetta fjármagn deilist og forgangsröðun og yfir höfuð hvað þetta eru í raun og veru í stóra samhenginu lágar fjárhæðir sem eru áætlaðar í þennan málaflokk. Nú þekkjum við báðar þörfina á uppbyggingu bæði tengivega og héraðsvega í okkar stóra kjördæmi og það má líka segja um önnur kjördæmi sem hafa setið á hakanum, eins og á Norðurlandi og Austurlandi og á Austfjörðunum. Hvað þykir hv. þingmanni um vinnubrögðin og það hvernig staðið er að þessu, að þetta komi seint og um síðir og að allir ákvörðunarferlar séu ógegnsæir?