145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[19:19]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Honum varð tíðrætt um áætlanagerð og hvernig sú áætlun sem birtist í fjárlögum 2015 hefur staðist. Þar er auðvitað mjög sláandi, eins og þingmaðurinn benti á, að það munar rétt tæpum 18 milljörðum, það er 18 milljarða skekkja á áætlun ríkisstjórnarinnar eða fjármálaráðuneytisins á arði frá Landsbankanum einum. Skekkjan var 15 milljarðar 2014 og við höfum grun um það í minni hlutanum að hún verði a.m.k. 20 milljarðar á árinu 2016. Við sjáum að það er ekki skortur á fjármagni sem veldur því að ekki er hægt að bæta kjör aldraðra og öryrkja því að það að greiða þeim afturvirkt frá 1. maí 10,9%, eins og lágmarkslaun hækka, kostar ekki nema 6.575 millj. kr. Það kostar ekki fjármagn.

Hv. þingmaður sagðist vera vongóður um að tillaga minni hlutans yrði samþykkt. Ég vil taka undir það með honum vegna þess að ég hef fundið fyrir því að stjórnarliðar eru farnir að snúast á sveif með okkur í minni hlutanum um að þetta sé sanngjarnt og eiga erfitt með að verja þetta, a.m.k. framsóknarmenn. Í morgun sagði hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir að boltinn væri hjá hæstv. fjármálaráðherra hvað þetta varðar og vísaði málinu frá framsóknarmönnum. Ég vil biðja hv. þingmann svona að velta því upp með mér hvort það geti hugsanlega verið að þegar upp sé staðið verði tillaga minni hlutans ofan á.