145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Við samþykktum hér þingsályktunartillögu um íslenskuna í hinum stafræna heimi og sjálf lagði ég á síðasta kjörtímabili fram þingsályktunartillögu sem fól í sér að varðveita menningararfinn í hinum stafræna heimi. Það er margra milljóna ef ekki hundraða milljóna verkefni, en því fyrr sem við hefjumst handa í því að vernda íslenskuna, vernda menningararfinn, því betra. Það er of seint að segja alltaf á morgun þannig að ég leyfi mér að taka undir með hv. þingmanni.

Ég vil líka leyfa mér að ætla að ráðherrar og ríkisstjórnir sem fá þingsályktunartillögur samþykktar á Alþingi, þar sem skorað er á ríkisstjórnir eða ráðherra að ganga í verkefni af þessum toga sem um er þverpólitísk sátt, geri það. Þó að það eitt nægi kannski ekki erum við þó að tala um menningararf okkar, við erum að tala um það sem sameinar okkur, íslenska tungu, og ef við ætlum að leyfa okkur með einum eða öðrum hætti að ganga af þessari tungu í hinum stafræna heimi, þó að við séum lítið málsamfélag, erum við illa stödd. Ef eitthvað sameinar íslenska þjóð er það tungumálið okkar sem okkur ber, á hvaða aldri sem við erum, í hvaða flokki sem við erum, hvaða áhugamál svo sem við höfum, að standa um vörð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna