145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðu hennar. Mig langar að taka undir með hv. þingmanni að hér hækka tekjurnar meira en gert var ráð fyrir. Það er út af fyrir sig mjög gott. En það verður þó ekki litið fram hjá því að þær mundu hækka mun meira ef ríkisstjórnin væri ekki sífellt að afsala ríkinu tekjum og tekjustofnum.

Ég er líka sammála því sem hv. þingmaður sagði um að það sé ekki hægt að líkja saman tekjuskatti og veiðigjöldunum. Mig langar aðeins að halda áfram með það því að um leið og veiðigjöldin lækka þá skila stórútgerðirnar í landinu alveg gríðarlega miklum hagnaði og greiða sér út mjög mikinn arð.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á það í gær að ríkissjóður fái skatta af arðinum sem útgerðarfyrirtækin greiða sér. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hægt að líkja þessu saman? Er hægt að líkja saman arðgreiðslum, þ.e. sköttum sem ríkissjóður fær af arðgreiðslum, og veiðigjöldum? Eða er hv. þingmaður mér sammála í því að það sé ekkert annað en mjög augljós birtingarmynd á brauðmolakenningunni margumtöluðu þar sem það er hreinlega orðið þannig að ríkissjóður verði bara að þakka fyrir þær tekjur sem hrökkva af arðgreiðslum ríkustu fyrirtækjanna í landinu til okkar?