145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

samkeppni á bensínsölumarkaði.

[15:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú hef ég ekki lesið alla skýrslu Samkeppniseftirlitsins en ég hef kynnt mér meginniðurstöðu hennar. Meðal þess sem þar kemur fram er að ýmislegt í innkaupum á eldsneyti hafi orðið til þess að einsleitni hafi vaxið mjög á því sviði, þ.e. að menn hafi á undanförnum árum sótt allt eldsneyti til eins og sama birgjans en það þykir eftirlitinu, ef ég skil þetta rétt, draga úr líkunum að menn séu raunverulega að keppa. Nú er það svo að enginn hefur efast um að það ríkir fákeppni á þessu sviði eins og á svo mörgum öðrum á Íslandi en það þýðir ekki að ekki geti ríkt hörð samkeppni milli fákeppnisaðilanna.

Hv. þingmaður nefnir óþolandi einokunartilburði, en ég tek eftir því að á milli þeirra félaga sem keppa á þessum markaði er töluvert mikill munur, bæði hvað varðar eðli starfseminnar þar sem hjá sumum er rétt um það bil helmingur veltunnar eldsneytissala á meðan aðrir eru eingöngu í slíkri starfsemi. Hjá sumum hefur verið ágætis rekstrarafgangur en hjá öðrum hefur hann verið mest lítill eða enginn. Ég hjó eftir því þegar ég kynnti mér þessar meginniðurstöður að ekki var að finna eiginlegar tillögur hjá Samkeppniseftirlitinu til þess að ráða bót á þeim vanda sem þar var lýst. Ég tók heldur ekki eftir því að menn hefðu komist að því að framin hefðu verið samkeppnisréttarleg brot, sem skilur okkur eftir með spurningar af þeim toga sem hér er velt upp.

Ég tel að opinber verðlagning sé afleit lausn á þeim vanda sem við okkur blasir, þ.e. hvernig við getum aukið samkeppni á þessum markaði. Það sem mér hefur (Forseti hringir.) virst að gildi á þessum markaði er gríðarlega mikil offjárfesting og það væri mjög æskilegt að skapa hvata fyrir félögin til að losa um þá offjárfestingu og skapa aukið hagræði sem ætti að geta nýst neytendum með því.