145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýlega rakst ég á fréttir um meintar áætlanir yfirvalda í Frakklandi um að banna ákveðna tækni sem er jafnan kölluð Thor en sömuleiðis að banna opnar internettengingar. Þetta eru mjög vondar hugmyndir en þó því miður dæmigerðar fyrir þær sem jafnan koma upp í kjölfar hryðjuverkaárása eða álíka hörmunga af mannavöldum. Það er þess virði að læra af sögunni.

Hryðjuverk eins og þau sem voru framin gagnvart ríkisþingi í Þýskalandi árið 1933 eða tvíburaturnunum í New York og Pentagon árið 2001 eða nýleg voðaverk í París eru ekki einungis ógn gagnvart fórnarlömbum hryðjuverkanna sjálfra heldur einnig gagnvart frelsi fólks eins og dæmin sanna. Sú ógn birtist í viðbrögðum yfirvalda í skjóli ótta almennings.

Með tölvutækninni myndast ekki bara sífellt ný tækifæri til góðra verka heldur eru einnig sífellt fleiri tækifæri fyrir yfirvöld til að ná tangarhaldi á þjóðfélaginu. Njóti valdhyggjan áfram rísandi vinsælda eins og þróunin er nú í Ungverjalandi, Frakklandi og jafnvel í Bandaríkjunum verðum við ekki bara að spyrja okkur um öryggi okkar gagnvart hryðjuverkum heldur einnig öryggi okkar gagnvart valdhyggjunni sjálfri. Ég veit betur en að fullyrða um hver eigi hvaða ummæli á internetinu, en þar er stundum sagt, að mínu mati með réttu, með leyfi forseta:

Þau sem fórna frelsinu fyrir öryggið eiga hvorugt skilið og munu glata hvoru tveggja.


Efnisorð er vísa í ræðuna