145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi tryggingagjaldið og ráðstöfun þess þá fer auðvitað hluti þess í Fæðingarorlofssjóð, hluti þess fer í lífeyristryggingar. Það er síðan alltaf umhugsunarvert með hvaða hætti við fjármögnum atvinnuleysi. Ég talaði gegn því hér á sínum tíma sem félagsmálaráðherra að hækka tryggingagjaldið. Það var ákvörðun aðila vinnumarkaðarins að óska eindregið eftir því, og sérstaklega atvinnulífsins, að tryggingagjald yrði hækkað. Ég varaði við því vegna þess að það mundi auka á atvinnuleysi og mundi gera það enn dýrara að ráða fólk í vinnu. Ég vildi frekar að við færum einhverja aðra skattahækkanaleiðir. Þetta var niðurstaðan. En þetta er skaðlegur skattur og það er ekki endilega gefið að það sé gott að hafa hann jafnvel þó að hann renni til góðs málefnis vegna þess að almennt séð er ekki rétt að hafa háa launaskatta. Ég segi það sem formaður í jafnaðarmannaflokki sem alltaf hefur lagt áherslu á tvennt, velferð og vinnu. Það er ekki rétt að láta það vera dýrt að fá fólk í vinnu.

Markmiðið með breytingum á fæðingarorlofinu er auðvitað að fjölga þeim sem það taka, og sérstaklega feðrum. Það er hins vegar mjög athyglisvert svar Guðbjarts Hannessonar við fyrirspurn á þinginu 2012–2013. Þar kemur fram að þeir sem helst ættu að taka fæðingarorlof í kjölfar hruns voru tekjulágir feður, sem ekki voru skertir neitt. Skuldabyrði heimila jókst og menn höfðu ekki efni á því að fara niður í 80% af tekjum. Hitt sem gerðist var að mjög neikvæð var umræða af hálfu SA á þeim tíma um fæðingarorlof feðra og menn óttuðust að starfið yrði ekki til staðar þegar þeir kæmu til baka úr fæðingarorlofi. (Forseti hringir.) Það voru mjög athyglisverðar tölurnar sem fylgdu því svari, þær sýndu ekki að tekjuhærri (Forseti hringir.) feður væru hættir að taka fæðingarorlof.