145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Af hverju þurfa menn alltaf að haga sér eins og kjánar á þessum tíma ársins, að fara í eitthvert „powerplay“ við okkur þingmenn um það hvenær þingfundi ljúki, halda yfir okkur einhverri hótun um að við verðum hér þangað til í fyrramálið? Og hvað ætla menn að fá út úr þessu annað en það að hér hleypur allt í keng? Af hverju getum við ekki talað saman eins og fólk? Af hverju getur forseti þingsins ekki bara sagt við okkur: Ramminn er þessi og við förum heim kl. tólf eða eitt eða hvað það er? Af hverju þarf þetta að vera svona? Þetta er stórundarlegt og það verða bara furðuuppákomur. Það er ekkert að undra að fólk botni hvorki upp né niður í þessu þingi og tengi sig engan veginn við það vegna þess að svona kemur enginn fram, svona eru ekki samskipti neins staðar annars staðar. Og það að setja skýran ramma hér um það hversu lengi þessi umræða á að vera, það mundi sýna okkur virðingu, þingmönnum, og stjórnarmeirihlutinn væri líka að sýna sjálfum sér sóma.