145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar aðeins að tala um vinnubrögðin við fjárlagagerðina, aðallega breytingartillögurnar sem ég hef gagnrýnt og við í minni hlutanum. Þar sjáum við koma inn alls konar verkefni sem hafa verið á safnliðum og ættu frekar heima undir sóknaráætlun. Það er talað um þetta sem eitthvert byggðafrumvarp og við hv. þingmaður erum sammála um að efla þarf byggðir landsins, en ég er ekki sátt við aðferðafræðina. Hv. þingmaður þekkir auðvitað sóknaráætlun landshluta, sem hefur verið mikil ánægja með þvert á flokka í sveitarfélögum og mér finnst í rauninni ótrúlegt þegar við náum að fara í verkefni þar sem þverpólitísk sátt ríkir. Ég sé engan mun á því hvar í flokki fólk stendur. En ríkisstjórnin hefur samt skorið mjög niður til sóknaráætlunar og byrjaði á því strax í fjárlögum 2014. Ég hefði viljað sjá þau verkefni sem verið er að veita út til byggða landsins fara í gegnum sóknaráætlun, vegna þess að þar eru heimamenn að taka ákvarðanir. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þetta og hvort hann sé ekki sammála mér í því að betra sé að peningarnir séu færðir út til þeirra sem hafa völdin þar í staðinn fyrir að það sitji sex manneskjur í meiri hluta fjárlaganefndar og poti þessu hingað og þangað. Ég get alveg sagt að mörg verkefni þarna eru afar góð en mér finnst ferlið ekki faglegt eða gagnsætt og um það gilda heldur engin stjórnsýslulög. Ég hefði viljað sjá meiri pening í sóknaráætlun og spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því og eins hvort hann hafi verið á móti því sem var gert á síðasta kjörtímabili í þverpólitískri sátt, að færa safnliði inn til ráðuneytanna. Þá er ég kannski helst að tala um mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nú er verið að taka þetta aftur inn í fjárlaganefnd, það eru sem sagt gömlu vinnubrögðin.