145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:23]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Mér finnst þetta kannski lýsa svolítið vöntun á framtíðarsýn sem núverandi stjórnarmeirihluti hefur í fjárlögum þar sem ekki er búið að finna eða ræða við þá aðila sem verða mest fyrir barðinu á því ef Þjóðskjalasafn Íslands yrði selt. Þar fyrir utan, til að sýna hversu óreiðukennd fjárlagagerðin hefur verið í ár, var breytingartillögu sem hafði nú bara gleymst upp á 1,2 milljarða, þ.e. breytingar fjárheimilda vegna kjarasamninga við Kennarasamband Íslands, útbýtt núna í dag. Eftir því sem við best vitum gleymdist að koma þessu að. Hvernig finnst hv. þingmanni svoleiðis vinnubrögð? Bæði það að hér er verið að leggja til að selja Þjóðskjalasafnið og að breytingartillögur hreinlega gleymist.