145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:42]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er komið í ljós að 1.200 milljónir vegna kjarabóta kennara gleymdust og eru að koma inn í nýrri breytingartillögu. Þetta er milljarðurinn sem gleymdist. Það kom í ljós í gær að hv. formaður fjárlaganefndar taldi að sig vantaði töluleg gögn til að geta rætt við aldraða og öryrkja og þurfti að fresta fundi þess vegna sem leiðir svo aftur hugann að því að fjárlaganefnd virðist alls ekki hafa haft þau talnagögn undir höndum sem hún þurfti til að vinna við fjárlagafrumvarpið. Það er algerlega ljóst að sú umræða sem nú fer fram í þingsal er marklaus. Það skortir allar forsendur fyrir henni og ég styð þá tillögu sem hefur komið fram um að nú verði fundi frestað og fjárlaganefnd verði gert (Forseti hringir.) að funda, ganga almennilega frá sínum málum og koma síðan til þings með vonandi réttar upplýsingar. Eiginlega þyrftum við þá að fá að hefja þessa fjárlagaumræðu upp á nýtt.