145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þá erum við aftur komin í efnislega umræðu um fjárlögin, sem er ágætt. Mig langar að byrja á að fjalla aðeins um hallalaus fjárlög. Nú ættu það ekki að vera neinar fréttir en það er mikilvægt að vera með hallalaus fjárlög og áður en við náðum hallalausum fjárlögum hafði ég þann sið þegar einhver vakti athygli á því að það vantaði peninga einhvers staðar að spyrja á móti: Erum við til í að fá þá lánaða? Þegar halli er á ríkisfjármálunum erum við í reynd að fá lánað, hvað svo sem við eyðum í. Oft er svarið já, stundum eigum við að fá lánað. Til dæmis til að bjarga mannslífi, þá eigum við að fá lánað. Ef fjárfestingin er góð getur verið gott að fá peninga lánaða. En maður á að spyrja sig þessarar spurningar þegar fjárlög eru með halla.

Þegar fjárlög eru ekki lengur með halla þarf maður að spyrja sig að tvennu. Annars vegar: Hvernig ætlar maður að eiga við skuldirnar sem eru búnar að hlaðast upp, frá hruni í þessu tilfelli? Hins vegar: Hvernig hyggst maður nýta það svigrúm sem hefur myndast? Þá reynir á skynsemi og forgangsröðun. Það er auðvitað mjög mikilvægt að borga niður skuldir. Sjálfum finnst mér mjög óþægilegt að ríkið skuldi yfir höfuð. Ég átta mig á að það er að einhverju leyti nauðsynlegt, svo er mér í það minnsta sagt. En mér er samt mjög illa við það. Við stöndum enn þá frammi fyrir því að vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs eru þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlaga sem er mjög vont. Menn segja oft: Við erum að borga um það bil eitt stykki Landspítala í vexti á hverju ári sem er óhemjuupphæð.

Þegar svigrúm eins og þetta myndast er hægt að forgangsraða. Við höfum auðvitað alltaf svigrúm til að forgangsraða en spurningin stendur eftir hvernig við viljum gera það. Minni hlutinn hefur lagt fram sameiginlega tillögur að því hvernig megi forgangsraða öðruvísi en meiri hlutinn. Mig langar einnig að fjalla um það að þótt við píratar tökum vissulega þátt í að bera fram þessar minnihlutatillögur þá þætti mér ægilega vænt um að í framtíðinni, einn daginn, einkenndust þingstörf ekki svona mikið af meiri hluta á móti minni hluta. Það er staðan sem við búum við núna, því miður, að verulegu leyti að minnsta kosti. Ég efast um að þær 37 mínútur sem ég á eftir nægi til að fara út í alla sálma hvað það varðar en mér finnst rétt að taka fram að mér þykir það leitt og ég vona að í framtíðinni verði umfjöllun um fjárlög og meðferð þeirra ekki jafn háð þessum tilteknu pólitísku línum. Mér þykir mjög eðlilegt að flokkar hafi mjög misjafnar áherslur. En mér þykir ekki eðlilegt að áherslurnar myndist út frá einföldum minni hluta eða meiri hluta, þ.e. hvaða flokkar séu í ríkisstjórn og hvaða flokkar ekki. Það eru ákveðnir þættir í stefnu Framsóknarflokksins, a.m.k. ef maður hlustar á suma þingmenn hans, sem eiga í raun miklu meira sameiginlegt með einstaka þingmönnum Vinstri grænna en einstaka þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlilegt. En það undirstrikar hins vegar að það ætti ekki vera þannig, á þingi sem virkaði eins og maður mundi halda að þing ættu að virka, að línan lægi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég hef ekki lausn á þessu sem ég get fært fram á 36 mínútum enda erum við að ræða fjárlög en mér þótti rétt að halda þessu til haga þegar fram líða stundir og við förum að takast á við þetta vandamál.

Það er eitt sem mig langar einnig að nefna áður en ég fer í einstaka þætti. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé hvati fyrir forstöðumenn ríkisstofnana til að skila afgangi, í það minnsta að halda sig innan fjárlaga. Það kemur alltaf upp karp um það hver beri ábyrgðina. Jú, það er ráðherra sem ber ábyrgð á því, síðan bera forstöðumenn stofnana ábyrgð gagnvart honum og svo framvegis en samt endum við alltaf á því að vera með fjáraukalög til að bæta upp fyrir eitthvað sem var ekki samkvæmt planinu en hefði alveg getað verið samkvæmt planinu. Væntanlega eru til einhver hvatakerfi, einföld og frumstæð, innan stjórnsýslunnar eins og það að skamma menn einfaldlega. En mér þætti mjög vænt um ef einn tiltekinn ósiður yrði aflagður. Hann er sá að gera ráð fyrir því að ef stofnun standi við sitt gagnvart fjárlögum sé ekki ástæða til þess að auka fjármagn til hennar þegar nýjar þarfir koma í ljós eða draga jafnvel úr fjárveitingum til stofnunar á þeim forsendum. Mér þykir það ekki sjálfsagt og mér þykir sú orðræða svolítið þvælast fyrir því að koma á einhverju almennilegu hvatakerfi. Stofnun sem stendur við sitt gagnvart fjárlögum á að njóta þess. Mér þykir það í grundvallaratriðum nauðsynlegt ef slíkt hvatakerfi á að vera virkt.

Að því sögðu ætla ég út í nokkur efnisatriði. Örorkubætur og ellilífeyrir er það sem mér þykir mikilvægast að nefna fyrst. Öryrkjar og aldraðir eru sá hópur samfélagsins sem ég sé hvað oftast verða fyrir óréttlæti af hálfu kerfisins. Það snýst ekki bara um upphæðirnar þótt þær skipti líka máli heldur einnig hvernig fyrirkomulagið er. Kerfið er afskaplega flókið og spurningar sem maður hefði haldið að væru einfaldar reynast flóknar, svörin jafnvel flóknari. Af þessu leiðir að réttarvarsla verður erfiðari, sérstaklega fyrir fólk sem er á mjög lágum bótum eða öllu heldur með mjög lágar tekjur frá ríkinu, örorkubætur eða ellilífeyri, og hefur því ekki mikið svigrúm eða tækifæri til að ráða sér lögfræðing sem getur farið í kerfið af fullum þunga og fundið út hvað sé hið rétta fyrir tiltekinn skjólstæðing. Réttarstaða ellilífeyrisþega og þeirra sem eru á örorkubótum er afskaplega slæm, hreinlega vegna þess að kerfið er svo flókið. Það er stundum sagt að kerfið sé svo flókið að enginn skilji það nema einn maður og sá maður segist ekki skilja það heldur til fulls eða er alla vega ekki viss um það. Sem kemur mér ekkert á óvart, þetta er mjög flókið.

Að því sögðu eru hlutir sem við vitum að við getum gert eða ættum að vita. Þar þykir mér persónulega mikilvægast fyrirbæri sem heitir tekjutenging. Almennt þykja mér tekjutengingar óráðlegar. Ég skil hvert markmiðið er með þeim. Ef einhver fær örorkubætur en er samt sem áður að vinna tekur fólk því sem vísbendingu eða jafnvel sönnun um að viðkomandi sé í raun vinnufær og hafi ekkert með þessar bætur að gera. Gott og vel, ég skil lógíkina. En þetta er afskaplega slæmt fyrir örorkubótaþega vegna þess að mjög margir öryrkjar geta gert eitthvað, geta unnið við eitthvað. Þeir búa alltaf við það að hafa úr litlu að velja í skamman tíma í einu og vera afskaplega viðkvæmir fyrir öllum skakkaföllum, hvort sem fyrirtækið sem þeir vinna hjá verður fyrir skakkaföllum eða eitthvað gerist í lífi þeirra, sem tengist jafnvel því að þeir eru á örorkubótum fyrir það fyrsta. Þessi hópur er alltaf veikur fyrir. Öryrkjar eru alltaf veikir fyrir, jafnvel þótt þeir finni eitt og eitt starf sem þeir geta sinnt að einhverju leyti yfir ákveðið tímabil dagsins eða einhvern tíma ársins eða því um líkt. Þess vegna finnst mér eðlilegt að örorkubótaþegar njóti þeirra tekna sem þeir þó geta aflað sér. Ég þekki persónulega fólk sem er á örorku og er almennt ekki vinnufært en getur ráðið við einstaka verkefni, er kannski með ákveðna andlega burði sem gerir því ókleift að funkera vel í ákveðnum kringumstæðum en er kannski ofboðslega gott á tilteknu sviði. Mér þykir mjög leiðinlegt að svona fólk geti ekki notað þá hæfileika sem það hefur til að vinna, jafnvel þó að það sé bara takmarkað. Það þarf oft að passa sig á því að vinna ekki, passa sig á að fá ekki tekjur vegna þess að þá er því refsað fyrir það. Ég skil lógíkina, ég er bara ekki sammála því að þetta sé ráðlegt.

Þegar kemur að tekjutengingu ellilífeyris vill svo skemmtilega til að jafnvel hæstv. fjármálaráðherra er sammála því að tekjutengingin ætti að fara, í það minnsta fyrir kosningar, nánar tiltekið í bréfi sem er dagsett 22. apríl 2013 og er undirritað „með vinsemd“ frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Ég er algerlega sammála. Tekjutenging ellilífeyris er eitthvað sem allir ættu að geta sammælst um að sé röng. Ellilífeyrisþegar hafa unnið fyrir sínum lífeyri, hann er ekki ölmusa. Mér finnst það illa gert að tekjutengja ellilífeyri. Ég er ósammála rökfræðinni þegar kemur að örorkubótum, en ég skil að það er ekki endilega illur hugur á bak við hana. Ég er bara efnislega ósammála því að það sé skynsamlegt.

Þá er alveg þess virði að rifja upp það sem við vorum nýlega að rífast um, að hækkun örorkubóta og ellilífeyris verði afturvirk til 1. maí. Mér finnst mjög sjálfsagt að styðja það, sér í lagi vegna þess að við þingmenn á hinu háa Alþingi nutum þeirrar ákvörðunar kjararáðs að fá afturvirkar launahækkanir sem er auðvitað mjög þægilegt, sérstaklega fyrir jól. En mér finnst leiðinlegt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar séu alltaf eftir á. Það er eitthvað við það hvernig við förum með þennan hóp sem gerir að verkum að hann er skilinn eftir. Mér finnst það afskaplega leiðinlegt. Síðast en ekki síst vil ég nefna að þegar menn koma hingað og tala um að svo og svo mikið gott hafi verið gert fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega upp á síðkastið og kenna síðan síðustu ríkisstjórn um að hafa gert svo og svo hræðilega hluti gagnvart þeim þykir mér þess virði að minna fólk á 120 milljarða kr. halla á fjárlögum sem þá var til staðar. Það skiptir máli. Stundum þegar hv. þingmenn koma hingað og byrja að skamma síðustu ríkisstjórn, vinstri stjórnina, fyrir að hafa þurft bölvandi að draga úr alls kyns greiðslum til öryrkja og ellilífeyrisþega, þykir mér það ekkert sérstaklega heiðarlegt, virðulegi forseti. Við búum ekki við sömu aðstæður í dag gagnvart fjárlögum og við gerðum árið 2009. Þetta er staðreynd, töluleg staðreynd. Fimm ára barn mundi skilja það. Ég get ekki tekið því sem neinu öðru en hugsunarleysi eða vísvitandi útúrsnúningi þegar fólk lætur eins og það sé hægt að bera saman aðstæðurnar núna og þær sem voru 2009. Það er fráleitt. Algerlega úti á túni. Fólk ætti ekki að niðurlægja sjálft sig og hið háa Alþingi með því að láta eins og það sé ekki algerlega úti á túni því það er það. Ekki nóg um það en ég ætla að láta samt staðar numið til að koma að fleiri atriðum.

Í tillögum minni hlutans er lagt til að Fangelsismálastofnun fái 80 millj. kr. í viðbót til að geta haldið áfram uppi fangelsiskerfi sem virkar, þannig séð. Vandi fangelsismálakerfisins og að mínu mati sérstaklega Litla-Hrauns er sá að viðvarandi krafa um svokallað aðhald, þ.e. niðurskurð, á síðustu árum hefur gert að verkum að starfsemin á Litla-Hrauni er í stuttu máli í molum. Það gengur ekki. Þetta er ekki málaflokkur sem fólki finnst endilega gaman að styðja. Það er ekki pólitískt heitt að styðja þetta. En þetta er eitthvað sem þarf einfaldlega að vera í lagi. Þetta er einn þeirra þátta í samfélaginu sem verða bara að vera í lagi. Ef það kostar eitthvað meira en okkur finnst þægilegt verður bara að hafa það. Þetta er ekki valkvæður málaflokkur frekar en margur annar.

Þá vil ég halda því til haga að ætlunin með þessari tillögu er að 50 millj. kr. séu eyrnamerktar Litla-Hrauni þar sem aðstæður eru sérstaklega slæmar, sama hvort um er að ræða húsnæðið eða mönnun eða hvaðeina. Á síðasta ári samkvæmt mínum heimildum þurfti 170 sinnum að fella niður úrræði eins og útivist og atvinnu og því um líkt til að uppfylla kröfur um mönnun. Það voru ekki peningar til að manna gæslustöður þegar það voru forföll. Þetta veldur auknu álagi sem veldur auknum forföllum sem aftur veldur auknu álagi. Það sem hefur sennilega haldið Litla-Hrauni gangandi er góður starfsandi. Auðvitað getum við ekki ætlast til þess að reka fangelsiskerfi á góðum vilja starfsmanna. Við þurfum að umbuna fólki fyrir erfiða vinnu. Þetta er erfið vinna. Starfsmenn komast í tæri við aðstæður sem þeir eru engan veginn þjálfaðir til þess að meðhöndla.

Mig langar til að leggja sérstaka áherslu á að þessi orðræða kemur frá fangavörðum, föngum, frá fyrrverandi fangelsisstjóra, frá fangelsismálastjóra. Það er sama hvern maður talar við í fangelsismálakerfinu, allir eru sammála um þetta, þetta eru staðreyndir og við þurfum að laga þetta. Við getum ekki litið svo á að þetta sé ekki nógu pólitískt skemmtilegt málefni til að hafa það í lagi. Kerfið þarf að vera í lagi, sérstaklega ef við ætlum að stuðla að einhverju sem heitir betrun. Það eru betrunarúrræði til staðar í kerfinu eins og menntun og atvinna. Þau eru ekki jafn sterk og maður vildi að þau væru en þau eru til. En þegar fjársveltið er eins og það er ná þessi úrræði ekki tilætluðum áhrifum. Fyrir utan það að maður mundi vilja að farið væri út í miklu meiri betrunarstefnu burt séð frá fjármagni en allt tal um betrun er fjarlægur draumur meðan aðstæður eru eins og þær eru. Það verður að laga þetta fyrst. Það verður að laga fjármagnsvandamálið. Og meðan ég man, Hólmsheiði, hin endanlega afsökun sem er oft notuð hvenær sem kvartað er undan einhverju í fangelsismálakerfinu, mun ekki leysa þetta vandamál. Hólmsheiði mun ekki gera það að verkum að Litla-Hraun lagist, að húsnæðið lagist eða mönnunin verði eitthvað auðveldari. Alls ekki.

Það má þó ekki gleyma því að það er stórgott starf sem oft hefur unnist í fangelsismálakerfinu. Fullt af fólki sem starfar þar á skilið mjög mikið hrós fyrir að standa vel að verki. En ef fjármagnið er ekki til staðar fer mikið af slíkum góðum hlutum til spillis, vel meintum og jákvæðum hlutum sem við ættum að nýta til fulls.

Annað sem ég vil fara inn á í tillögum minni hlutans er fjármagn til umboðsmanns Alþingis, en við leggjum til að fjárveitingar til umboðsmanns Alþingis verði hækkaðar um 15 millj. kr. Meiri hlutinn lagði til að fjárveitingar til umboðsmanns Alþingis yrðu lækkaðar um 13 millj. kr. Nú er það þannig að umboðsmaður Alþingis hefur flutt í húsnæði sem Alþingi á og er hættur að leigja. Leigan var um 13 millj. kr. á sínum tíma. Með því að lækka fjárveitingar um sömu upphæð er gert ráð fyrir að það sé bara ókeypis að vera í húsnæði yfir höfuð. En auðvitað er það ekki ókeypis. Það er ýmis rekstur sem fylgir húsnæðinu og ýmislegt sem umboðsmaður Alþingis hefur þurft að gera þar. Það er ekki enn þá komið aðgengi fyrir fatlaða sem að mínu mati er algerlega fráleitt. Þetta er ein helsta eftirlitsstofnun landsins að mínu mati, heyrir beint undir Alþingi og sinnir því verkefni að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og sinna kvörtunum borgaranna. Og það er ekki aðgengi fyrir fatlaða. Svo ætla menn að skera niður. Mér þykir það fráleitt, virðulegi forseti. Það eru fleiri framkvæmdir við húsnæðið sem eru eftir og síðan er það öryggisgæsla, matur, viðgerðir, fasteignagjöld — alls kyns kostnaður sem umboðsmaður þarf að standa undir. Það er ekki svo að einfalt að 13 milljónir hafi dottið af himnum ofan fyrir umboðsmann Alþingis sem hann geti nýtt í það sem hann vill nota féð í, sem eru frumkvæðisathuganir.

Umboðsmaður Alþingis hefur verið algerlega skýr í sínum málflutningi gagnvart Alþingi á fleiri en einum vettvangi. Alþingi þarf að ákveða hvert hlutverk umboðsmanns á að vera. Ef hlutverk hans er að sinna frumkvæðisathugunum, sem ég held fram að séu algerlega sjálfsagðar og hafi reynst mjög mikilvægar svo ekki sé meira sagt, þá verðum við að fjármagna þann lið eins og umboðsmaður Alþingis telur nauðsynlegt til að sinna frumkvæðisathugunum með sóma. Talan sem hann hefur nefnt eru 15 millj. kr. Þess vegna leggjum við til að fjárútlátin verði hækkuð til umboðsmanns Alþingis um þá upphæð til að hann geti sinnt störfum sínum með sem mestum sóma.

Það þarf ekki að rekja í löngu máli hvers lags trausts umboðsmaður Alþingis nýtur. Það er mjög mikið traust. Hann sinnir mörgum kvörtunum borgaranna, hann hefur einnig sinnt frumkvæðisathugunum og í hinu margumtalaða lekamáli reyndist vinna hans ómetanleg í þeirri umræðu. Það læðist að manni sá grunur að þegar Alþingi og ríkisstjórn eru svo ofboðslega samofin ríki ákveðið áhugaleysi gagnvart því að þetta embætti geti starfað af fullum krafti. Ég segi það eins og er. Ég er alveg viss um að þetta hlýtur að móðga einhvern en ég vísa því beinlínis til föðurhúsanna vegna þess að samband Alþingis og ríkisstjórnarinnar er ekki eðlilegt. Það er ekki eðlilegt hvernig ríkisstjórnin stjórnar meiri hluta Alþingis, hvernig ríkisstjórnin stjórnar raunverulega landinu umfram það sem Alþingi á að gera. Þetta samband er mjög óeðlilegt. Ég fer ekki og mun ekki fara ofan af því fyrr en í fyrsta lagi þegar ráðherrar eru hættir að vera líka þingmenn. Mér þykir það mjög óeðlilegt samband og þess vegna þykir mér algerlega eðlilegt að skjóta fram þessum grun mínum. Umboðsmaður Alþingis hefur notað það fé sem hann hefur fengið af ábyrgð. Það er ekki í lagi að mínu mati að þessi stofnun þurfi að þola fjársvelti þegar hún sjálf segir mjög skýrt að til þess að sinna frumkvæðisathugunum svo sómi sé að miðað við álag þurfi hún aukið fjármagn.

Tíminn líður hraðar en maður heldur eins og venjulega. Þá vil ég fjalla aðeins um heilbrigðiskerfið. Ég fagna því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ætli í andsvar við mig. Nú sjáum við í fréttum og vitum það að Íslendingar upp til hópa í dag trúa því ekki lengur að við njótum fyrsta flokks heilbrigðiskerfis. Það er mikið ákall um að laga það. Það hefur verið lengi fjárskortur í heilbrigðiskerfinu sem mun sjálfsagt taka einhvern tíma að laga en það þarf líka einfaldlega meira fjármagn. Ef þjóðin er spurð um forgangsröðun skattfjár skiptir ekki máli á hvaða aldri fólk er, af hvaða kyni eða í hvaða flokki það er, heilbrigðiskerfið er í fyrsta sæti hjá íslensku þjóðinni þegar kemur að nýtingu skattfjár. Það er eðlilegt. Ef tilgangur ríkis væri bara einn, og ég er ekki að segja að svo sé, en ef svo væri, væri það sennilega að reka heilbrigðiskerfi. Þegar maður spyr um forgangsröðun skattfjár kemur heilbrigðiskerfið upp fyrst og niðurstaðan er mjög afgerandi og yfirþyrmandi. Við eigum að taka mark á henni. Við eigum ekki að stjórna fjárlögum eftir skoðanakönnunum en niðurstaðan er algerlega afgerandi og gæti ekki verið skýrari. Og þegar við erum komin með hallalaus fjárlög þá höfum við ekki lengur afsakanir fyrir því að hafa þetta ekki í lagi. Margir mundu segja að við hefðum aldrei haft neinar afsakanir fyrir því. Reyndar þarf peninga til að reka þetta kerfi allt saman og ef fólki finnst peningarnir ekki skipta máli þá ætti ekki að skipta máli þótt skorið væri niður. Það meikar ekki sens. En núna eru fjárlög hallalaus. Það er svigrúm til þess að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins og til Landspítalans sérstaklega og þá eigum við að gera það. Við eigum að gera það upp að því marki að þjóðin byrji aftur að treysta því að við séum raunverulega að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins.

Flóttafólk og hælisleitendur er annar málaflokkur sem hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið og það með réttu. Í dag fengum við þingmenn ansi marga tölvupósta þar sem skorað var á okkur að breyta ákvörðun, sem Alþingi tekur reyndar ekki nema í þeim víða skilningi að við setjum landslög, um að vísa albanskri fjölskyldu frá Íslandi. Ég ætla ekki að fjalla mikið um það einstaka mál sökum tímaskorts, en það er algengur misskilningur að fólk sé byrði á samfélögum. Fólk er samfélag. Fólk er hagkerfi. Fleira fólk þýðir stærra hagkerfi. Ef okkur tekst að taka vel á móti fólki — og það er mikilvægt að við tökum vel á móti því og fjárfestum í því með ýmsum hætti, tíma, þolinmæði, umburðarlyndi og auðvitað beinhörðum peningum við allt það sem þarf að gera til að standa vel að móttöku fólks — þá græðir íslenskt samfélag, menningarlega og efnahagslega, í það minnsta til lengri tíma. Auðvitað kostar þetta eitthvað í byrjun, það er eðlilegt. Það kostar 16–20 ár að koma nýfæddu barni til þess að vera skattgreiðandi, vinnandi borgari. Stundum verður viðkomandi það ekki, en ekki erum við á móti því að setja börn í skóla. Ekki ráðum við fólki frá því að eignast börn vegna þess að það sé svo dýrt að koma þeim til manns. Varla. Þetta er málaflokkur sem ég tel að við eigum að líta á í auknum mæli sem fjárfestingu. Ekki sem einhverja ölmusu heldur sem fjárfestingu þar sem við stöndum vel að verki. Það er mjög mikilvægt að við gerum það. Oft er bent á að í öðrum löndum séu hin og þessi vandamál og það er hægt að læra af þeim. Ein mikilvægasta lexían að mínu mati er að standa vel að móttöku fólks.

Það verður að segjast eins og er um þennan málaflokk að fjármögnun hans hefur tilhneigingu til að vera frekar ófyrirsjáanleg. Maður sér ekki fyrir hvernig ástandið í heiminum þróast eða hverjar þarfirnar eru hverju sinni. Það er eitthvað sem við þurfum að vera viðbúin. Ég tel að við ættum miklu frekar að offjármagna þennan málaflokk en undirfjármagna því með offjármögnun erum við mun líklegri að mínu mati til að stuðla að fjárfestingu til lengri tíma í fólki en ef við skerum niður í þessum málaflokki. Enda leggur minni hlutinn til um 200 millj. kr. aukið framlag til útlendingamála.

Það eru ekki einungis þessi efnisatriði sem eru þess virði að fara yfir. Mér finnst líka mikilvægt að í umræðu um fjárlög tölum við um framsetningu fjárlaga, málsmeðferðina, vinnubrögðin og svo framvegis. Oftar en ekki þegar við tölum um vinnubrögðin er einn að skamma annan. Ég hef haldið nokkrar ræður um mikilvægi þess að fjárlög séu á tölvutæku sniði og fagna því mjög að í frumvarpi um opinber fjármál hafi tekist að koma inn málsgrein um að framsetning fjárlagafrumvarps skuli vera tölvutæk. Það er eitthvað sem ég fullyrði að muni skapa meira gegnsæi en hið háa Alþingi áttar sig á. Fjárlög eru gegnsæ í þeim skilningi að upplýsingar eru til staðar en það skiptir máli hvernig þær eru settar fram og hvernig hægt er að nýta þær. Núna þegar ég ætla að reikna út eitthvað í fjárlögum þarf ég að velja töluna og setja hana inn í töflureikni og finna einhverjar tölur hjá Hagstofunni og miða við t.d. neysluverðsvísitölu eða eitthvað því um líkt. Þetta er handavinna í tölvu sem í raun og veru er ekki svo frábrugðin því og ef maður væri með reiknivél og pappír fyrir framan sig, sem er fráleitt árið 2015. En sem betur fer kemur þetta til með að breytast eftir að við samþykkjum hið ágæta frumvarp um opinber fjármál sem ég hlakka til að greiða atkvæði með. Það munar mjög mikið um þetta, það munar meira um þetta í sambandi við gegnsæi og skilvirkni en til dæmis að fækka tekjuskattsþrepum úr þremur í tvö eða fækka virðisaukaskattsþrepum. Margir hér tala með réttu um að mikilvægt sé að hafa einfalt skattkerfi. Einföldun er í eðli sínu þáttur í gegnsæi og ber að virða það. En hins vegar verður maður líka að átta sig á því að tæknin breytist, aðstæður breytast og geta manna til að meðhöndla upplýsingar og vinna úr þeim breytist einnig, til hins betra í samtímanum að minnsta kosti.

Þess vegna finnst mér alltaf svolítið skakkt að tala um einföldun skattkerfisins í formi þess að fækka einhverjum skattþrepum. Ef ég sem forritari væri að skrifa forrit sem ætti að reikna út tekjuskatt væri ekki miklu flóknara að búa til forrit sem gerði ráð fyrir þremur skattþrepum en tveimur. Eða fimmtíu milljón skattþrepum ef út í það er farið. Forritið sjálft væri ekki mikið flóknara, þ.e. ef maður notar forrit til að gera þetta sem ég legg til að við gerum. Það stuðlar miklu frekar að gegnsæi í skattheimtu eða nýtingu fjármagns að sýna gögnin á nýtanlegu sniði, á sniði og í framsetningu sem hægt er að nota með tölvutækum hætti. Það sem gerist er að samfélagið sjálft bregst við. Einstaka nörd út í bæ eins og ég sem hefur áhuga á þessu, setur upp vef eða býr til forrit. Það gerist, það eru dæmi um það. Ég nefni enn og aftur hvertferskatturinn.is. Ég stend ekki að þeim vef, enginn pírati að mér vitandi, ég veit ekki hvað sá hv. herramaður kýs. En það var alla vega enginn úr okkar röðum, enginn af þingi, enginn frá ríkinu. Það var bara einhver aðili úti í bæ, einn einstaklingur með tölvuþekkingu. Hann hefur ekki einu sinni þurft það mikla tölvuþekkingu. Hann nýtti útgefin gögn, sem er ársreikningur ríkisins, á tölvutæku sniði og mjög fínu sniði ef út í það er farið. Þetta býr til gegnsæi, býr til betri framsetningu á ársreikningi.

Við eigum að gera hið sama með fjárlög. Við eigum að gera almenningi kleift að nýta fjárlög þannig að hann geti sjálfur tekið þátt í forgangsröðun á verkefnum. Ég held því fram að almenningur hafi ekki gott tækifæri til þess að gera það, ekki í það minnsta ef um er að ræða fólk í vinnu, sem á börn og er almennt upptekið í lífinu eins og við flest erum auðvitað. En fólk hefur gaman af því að skilja gögn betur og tengja saman gögn. Það er fullt af fólki úti í samfélaginu og ef ekki fólk þá fyrirtæki eins og Datamarket eða önnur fyrirtæki sem hafa gaman af að setja fram flókin og leiðinleg gögn í sætum og skemmtilegum marglita línuritum og kökuritum og guð má vita hverju. Þetta skiptir máli.

Ég vona að frumvarpið um opinber fjárlög verði sem fyrst samþykkt og ný framsetning á fjárlagafrumvarpi taki við. Þá fyrst held ég að hægt verði að halda áhugaverðar ræður um það hvað sé hægt að gera við fjárlögin. Þá fyrst held ég að myndist tækifæri til að skoða flóknari leiðir til að fjármagna eitthvað sem maður sér ekki annars hvaðan peningarnir ættu að koma í, eða hver mismunandi áhrif forsendna mundu hafa á fjárlög. Allt svona verður miklu auðveldara ef frumvarpið er einfaldlega gefið út á tölvutæku sniði. Það er mér satt best að segja hulin ráðgáta hvers vegna það hefur ekki verið gert fyrr. Hér koma þingmenn oft í röðum og kvarta undan framsetningu fjárlagafrumvarps burt séð frá tölvutækni, bara yfir því hvernig gögnin eru sett fram á pappírnum. Nú verð ég að viðurkenna að ég er miklu vanari því að eiga við tölvutæk gögn og er ekki einu sinni viss um hvernig ég færi að því að setja fram frumvarp eingöngu á blaði. Ef við ætlum að stuðla að einfaldara skattkerfi og meira gegnsæi í þeim málaflokki er það þetta sem við eigum að líta til; upplýsingamiðlun til skattgreiðandans, til aðila úti í bæ. Það er leiðin fram á við í skattkerfinu, ekki endilega að hræra í prósentunum sjálfum eða velta því fyrir sér hversu mörg skattþrepin eru.

Það eru fleiri atriði sem mig langar að koma inn á. Eitt af því er í nýstárlegri kantinum sem mér þykir vænt um að fá tækifæri til að nefna aðeins. Það er fjármögnun sveitarfélaga. Mig langar að nefna sérstaklega áhugaverða stefnu sem var nýlega samþykkt í mínum ágæta flokki Pírötum sem varðar útsvar fyrirtækja. Stefnan er í sjálfu sér einföld og þetta er allt til umræðu. Ég vil vekja athygli á þessu sérstaklega því hér er fólk sem þekkir þessi kerfi vel og ég hlakka til að heyra álit þess. Hugmyndin er sú að af tekjuskatti fyrirtækja skuli greiða útsvar til sveitarfélaga þar sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjutengda starfsemi. Nú eru Píratar einungis með þingmenn á Stór-Reykjavíkursvæðinu, Reykjavík norður, Reykjavík suður og Suðvesturkjördæmi, en við lítum á okkur sem þingmenn alls landsins. Þegar ég fer út á land og hlusta á kvartanir fólks utan stórhöfuðborgarsvæðisins finn ég að oftar en ekki kemur upp mjög sterk gremja yfir því að við í Reykjavík þykjumst og teljum okkur stjórna öllu úti á landi, að við lítum svo á að fólk búi ekki raunverulega úti á landi, það geti alltaf komið til Reykjavíkur og peningarnir úti á landi geti alltaf komið til Reykjavíkur og þaðan sé þeim síðan dreift aftur út á land.

Þetta fær mig til að velta mjög fyrir mér raunverulegri valddreifingu bæði á Alþingi og sömuleiðis þegar kemur að ráðstöfun fjármagns yfir höfuð. Hér er oft bölsótast yfir svokölluðu kjördæmapoti sem mér hefur löngum þótt mjög ósanngjarnt. Það er ástæða fyrir því að við erum með kjördæmaskipt land og hún er einfaldlega sú að hagsmunir fólks utan stórhöfuðborgarsvæðisins mega ekki gleymast þrátt fyrir að hér búi meiri hluti þjóðarinnar. Það hefur sína galla svo sem ójafnt vægi atkvæða og fleira í þeim dúr. En eftir stendur spurningin: Hvers vegna fær fólk ekki bara að ráða sér svolítið meira sjálft? Hvort sem við tölum um einstaklinga eða bæjarfélög, sveitarfélög, lönd eða landshluta þá tel ég að við eigum að hafa það að leiðarljósi að fólk almennt stjórni sínu lífi sem mest og öðrum sem minnst. Það þýðir að við eigum að efla einstaklingsfrelsi, tengja valdið við þá sem þurfa að lúta því. Í grunninn snýst lýðræði og einstaklingsfrelsi um sama hlutinn sem er sjálfsákvörðunarrétturinn. Hann er á öðrum skala og í öðru formi en hann þjónar í grunninn sama hlutverki að mínu mati. Þess vegna þætti mér mjög áhugavert að sjá hvað hugmynd eins og þessi mundi hafa í för með sér varðandi möguleika sveitarfélaga á að fjármagna sjálf það sem þau vilja gera. Mikið af tekjum fer til ríkisins og síðan erum við hér að karpa um það hvert peningarnir eigi að fara aftur út á land. Auðvitað væri langskynsamlegast ef í ljós kemur að landsbyggðin getur raunverulega staðið undir mörgum af þessum verkefnum að hún geri það bara sjálf án þess að spyrja fólk í Reykjavík.

Þetta er auðvitað eitthvað sem þyrfti að kanna til hlítar. Ég heyri víða hjá fólki sem ég tel vita sínu viti, án þess að ég hafi endilega reynt að staðfesta það við hvert einasta tækifæri, að landsbyggðin spyrji stundum: Höfum við efni á Reykjavík? Þá er orðræðan sú að landsbyggðin framleiði nóg af verðmætum sem einfaldlega fari hingað til Reykjavíkur og við í Reykjavík ráðstöfum síðan í allri þessari pólitík og flandri sem viðgengst meðal annars á Alþingi í fjárlögum og slíku. Ef reyndin er sú að landsbyggðin gæti að einhverjum hluta fjármagnað þessi verkefni sjálf væri tilvalið að hún gerði það einfaldlega. Þarna held ég að sé tækifæri til að auka sjálfsákvörðunarrétt fólks úti á landi. Tengja það nær valdinu sem það þarf að lúta. Gera því kleift að stjórna örlögum sínum betur. Ég held að það væri afskaplega jákvæð þróun fyrir þetta land. Að því sögðu er ég viss um að það eru einhverjir gallar við þessa hugmynd sem ég sé ekki enda vek ég máls á þessu til þess að kanna áhuga annarra hv. þingmanna og hvort á hugmyndinni séu gallar sem felli hana, eða menn sjái eitthvað sem geti hjálpað til við að gera hana raunhæfa. En hugmyndin sem er útfærð í þessari nýsamþykktu stefnu okkar pírata er í sjálfu sér einföld. Hún er að af tekjuskatti fyrirtækja skuli greiða útsvar til sveitarfélaga þar sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjutengda starfsemi. Þetta kemur einnig að virðisaukaskatti svo það sé sagt líka, af virðisaukaskatti skuli greiða útsvar til sveitarfélaga þar sem viðkomandi viðskipti eða sala eiga sér stað.

Síðast en ekki síst á þessum lokamínútum ætla ég að fjalla um skatteftirlit. Í tillögum minni hlutans gerum við ráð fyrir auknum tekjum ríkissjóðs í formi skatttekna vegna aukins skatteftirlits. Það var fyrir einhverjum árum þegar ég notaði meira reiðufé en ég nota núna, áður en ég fór á þing, að ég tók eftir því að víða hefur fólk tilhneigingu til að stimpla inn í kassann eitthvað sem ég kannaðist ekki við að ætti að gera frá því ég var á táningsaldri og vann í sjoppu. Ég hef hugsað um þetta í dágóðan tíma og velt fyrir mér hversu mikið af skattsvikum raunverulega eigi sér stað á Íslandi. Ég óttast að í menningu okkar sé ákveðið viðhorf gagnvart skattundanskotum, að þau séu í raun og veru eðlileg og réttlætanleg. Ég óttast að þetta viðhorf hafi aðeins styrkst eftir hrun. Eftir hrun upplifði þjóðin mjög mikinn skort á trausti til stjórnmálamanna og þess að þetta kerfi, ríkið, væri raunverulega fyrir fólkið í landinu. Ég held að undir slíkum kringumstæðum þegar skattar eru háir og virðisaukaskattur er hár, alla vega efra þrepið, sé auðveldara en ella fyrir einhvern sem er í rekstri sem gengur kannski ekki mjög vel að réttlæta fyrir sjálfum sér skattundanskot. Þess vegna þykir mér algerlega á það reynandi að efla skatteftirlit í því augnamiði að auka skattheimtu. Ef þetta menningarlega atriði festir rætur, þetta viðhorf til skattundanskota, getur verið mjög erfitt að losna við það, ef það er þá mögulegt. Það er frægt í Grikklandi til dæmis hvernig skattundanskot þykja næstum því bara almenn skynsemi, hálfgerð vitleysa að borga skatta ef maður mögulega kemst hjá því. Það er afskaplega óhollt viðhorf. Við verðum að sporna við því áður en það verður að stærra vandamáli, þ.e. ef þessi grunur minn er réttur um að þetta sé að aukast, þetta er nú bara órökstuddur grunur verð ég að viðurkenna. En mér þótti rétt að minnast á þetta í ljósi þess að við gerum ráð fyrir þessu í tillögum minni hlutans.

Það er ýmislegt fleira sem væri hægt að fara út í en í ljósi þess að ég á einungis tæpar 30 sekúndur eftir af ræðutíma mínum, virðulegi forseti, ætla ég ekki að hætta á það að geta komið einhverju af viti frá mér á þeim tíma, jafnvel þótt lengri væri, og lýk því ræðu minni.