145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar frumvarpið var lagt fram skildist mér samt sem áður að gert væri ráð fyrir 11 millj. kr. niðurskurði þótt fyrstu tölurnar sem ég hafi séð í frumvarpinu hafi litið út eins og hækkun. Ég fór meira að segja í viðtal um leið og ég las það og fagnaði því að þarna væri lagt til aukið fjármagn, en svo talaði ég við fólk innan fangelsismálakerfisins og þá var mér sagt að það væri samt sem áður gerð 11 millj. kr. aðhaldskrafa. Ég þyrfti að skoða það betur með hv. þingmanni ef sá skilningur minn er á einhvern hátt rangur. Ég hef það frá fleiri en einum stað innan kerfisins, en ég er alveg reiðubúinn til að skoða það eitthvað betur.

Hins vegar þegar kemur að breytingartillögu meiri hlutans þá fagna ég henni. Hún hljóðar að vísu upp á 45 millj. kr. í fjárlögum, restin kemur í fjáraukalögum, sem er svo sem skárra en ekkert. En tillaga okkar í minni hlutanum er að 80 millj. kr. fari til þessara mála í fjárlögum næsta árs, þannig að fjárveitingin sé fyrir hendi og að þetta sé hugsað til lengri tíma.