145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanni fyrir ágætisræðu, hann fór vel yfir fjárlögin og leit þau auðvitað sínum augum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í tryggingagjaldið. Nú hafa fyrirtæki ákallað ríkisstjórnina um að lækka tryggingagjaldið þar sem hluti af samningum á vinnumarkaði var að það yrði lækkað og mönnum þykir sú lækkun sem er boðuð vera allt of lítil. Hvað telur hv. þingmaður í þeim efnum? Að þetta geti valdið því að kjarasamningar verði ekki framlengdir við endurskoðun í febrúar á næsta ári?

Hv. þingmaður kom mikið inn á samgöngumál í landinu og uppsveiflu í ferðaþjónustu. Nú er ferðamannageirinn að skila miklum gjaldeyri til landsins, um 340 milljörðum, kannski er það óábyrg tala sem nefnd hefur verið. Finnst hv. þingmanni ekki að það eigi að skila sér miklu betur en sú snautlega fjárhæð sem er til samgangna í fjárlagafrumvarpinu, það eru auðvitað mjög lágar upphæðir til viðhalds og reksturs samgöngumannvirkja og nýframkvæmda? Þetta eru bara mjög lágar fjárhæðir og þessi litla viðbót sem kom í breytingartillögum á milli 1. og 2. umr. er auðvitað smápeningar í því samhengi. 235 milljónir í viðhald vega er eitthvað sem klárast upp á nokkrum dögum og þetta er það lítið að það er næstum því broslegt. (Forseti hringir.) Hvað segir hv. þingmaður um þetta?