145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Það er væntanlega hægt að útskýra þennan mun á marga vegu. Ég dreg ekkert úr því að við erum að færast í betri átt, ég hef sagt það, í átt til jöfnuðar, en við þurfum að gera betur. Eins og komið hefur fram í ræðu og riti hjá okkur er ekki nóg að gert og ef við höldum áfram sem horfir þá er viðbúið, og það hefur líka komið fram, m.a. hjá OECD, að við förum í átt til ójöfnuðar aftur og það er ekki það sem við viljum gera.

Ég tel að við getum viðhaldið þessum jöfnuði. Ég tel ekki að við getum viðhaldið honum ef við hverfum af þeirri braut sem var, og það er ekki bara ég. Það hefur komið mjög víða fram og er rökstutt mjög víða, m.a. ræddum við rannsóknir hér í vetur frá Cambridge og víðar þar sem sýnt hefur verið fram á að þetta er ekki vænlegt til árangurs til lengri tíma. Við skulum ekki gleyma því að það getur líka verið þannig þegar uppsveifla er, hún kemur við alla eða ætti að geta gert það, en niðursveiflan kemur alltaf svolítið harðar á þeim sem minnst hafa. Í eðli málsins skýrist það þannig. Ég held að við séum sammála um það að við viljum í rauninni viðhalda jöfnuði, en ég held að við höfum bara ólíka nálgun á hvort við trúum því að sú stefna sem rekin er af þessari ríkisstjórn verði til þess að hann haldist eða ekki. Ég hef áhyggjur af því eins og margir aðrir að það gerist ekki.