145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Í upphafi ræðunnar talaði hv. þingmaður um kafla í nefndaráliti meiri hlutans sem ber yfirskriftina Íþyngjandi löggjöf. Um leið eru komin skilaboð um að þarna sé eitthvað vont á ferðinni sem sé íþyngjandi og við þurfum að breyta. Í meirihlutaálitinu stendur meðal annars í þessum kafla, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn brýnir ráðherra einstakra málaflokka að huga að uppbyggingu, starfsemi og tilgangi margvíslegra eftirlitsstofnana og eiga um það samvinnu við atvinnulífið sem þær þjóna. Samhent átak um lægri skattheimtu og minni umsvif í ríkisrekstri er atvinnulífinu og ríkissjóði til hagsbóta.“

Síðar er talað um að einfaldara regluverk fyrir atvinnulífið sé eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar.

Þetta væri svo sem gott og gilt ef þessar eftirlitsstofnanir væru ekki meira og minna að þjóna neytendum og almenningi. Ég ætla að telja upp hvaða eftirlitsstofnanir það eru sem meiri hluti fjárlaganefndar er að senda skilaboð til sinna hæstv. ráðherra um í nefndarálitinu að eitthvað þurfi að gera með. Það eru Fjármálaeftirlitið, Mannvirkjastofnun, Jafnréttisstofa, Matvælastofnun, Fjölmiðlanefnd, Lyfjastofnun, Umboðsmaður Alþingis, Landlæknir, Samkeppniseftirlitið, Póst- og fjarskiptastofnun, Vinnueftirlit ríkisins, Umhverfisstofnun, Ríkisendurskoðun, Hafrannsóknastofnun, Geislavarnir ríkisins, Fiskistofa og Samgöngustofa. Meiri hluti fjárlaganefndar vill að ráðherrarnir skeri þarna niður og hætti að láta eftirlitsstofnanirnar vera íþyngjandi og eigi samráð við atvinnulífið sem þær þjóna. (Forseti hringir.)

Ég vil spyrja hv þingmann hvort henni finnist ekki einkennilegt að hvergi er minnst á (Forseti hringir.) almenning eða neytendur í þessu sambandi.