145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:24]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Já, hagsmunir Íslands, já. Þú talar um að þeir hafi ekki — (Gripið fram í: Háttvirtur.) hv. þm. Brynjar Níelsson talar um að við höfum verið að leggja of mikið á þessi fyrirtæki. Ég er ekki sammála honum í því. Hann er að tala um fjárfestingar. Eru það þá fjárfestingar eins og kúabú, morgunblöð og olíufélög og prentsmiðjur? (Gripið fram í.) Já, þeir eru að fjárfesta út úr greininni í stórum stíl. Ég get nefnt sem dæmi að á Hornafirði (Gripið fram í.) fjárfestu þeir í að kaupa kúabú og komu síðan hingað til Alþingis til að biðja um 30–40 milljónir til að dýpka Grynnslin. Þeir borguðu sér út 6 milljarða í arð á nokkrum árum.

Nei, hv. þingmaður, þetta er — (Gripið fram í: Eru 6 milljarðar … eigið fé?) Þeir eru að borga sér fleiri milljarða út úr þessari grein á hverju einasta ári í arð. Það er allt í lagi, það er fínt, en þá eru þeir líka alveg í stakk búnir til að borga meira inn í samfélagið. Það er alveg á hreinu. (Gripið fram í.)