145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Hér þarf annað tveggja að gerast, að hæstv. fjármálaráðherra verði ræstur út eða það verði einfaldlega gert hlé á umræðunni og fjárlaganefnd gert kleift að fara yfir þætti sem augljóslega munu bætast inn í fjárlagafrumvarpið áður en það getur verið samþykkt á þingi. Þá erum við ekki bara að tala um þetta seðlabankamál, sem við höfum ekki fengið neina almennilega skýringu á, heldur líka lífeyrismál. Það sjá allir að það verður ekki friður um þá niðurstöðu sem meiri hlutinn lagði hér upp með. Í heilbrigðiskerfinu er allt í uppþotum, það er mikil óánægja og undiralda sem verður að bregðast við og það verður að fara yfir af skynsemi hvernig á að leysa úr þessum málum. Svo eru málefni fatlaðra, við vorum núna að fá hingað upplýsingar um að loksins hefði náðst að minnsta kosti bráðabirgðaniðurstaða. Það þarf að fara yfir hana. Er þetta fullnægjandi? Hvaða áhrif hefur þetta á notendastýrða persónulega aðstoð sem við höfum hér mörg miklar áhyggjur af?

Svo er það blessað Ríkisútvarpið sem haldið er í nefnd en mundi fá fullan stuðning minni hlutans. Við leggjum mikla áherslu á það. Þetta eru einfaldlega svo stórar fjárhæðir sem og kennarasamningarnir sem komu líka hingað inn eitt kvöldið. Yfir þetta þarf að fara því að 3. umr. er frágangsumræða. Þar eru gerðar einhverjar minni háttar leiðréttingar og lagfæringar en breytingar af því tagi sem við erum að tala um hér þarf að afgreiða í 2. umr. Þess vegna væri eðlilegast að mínu mati, og ég spyr þingmanninn um hans álit á því, (Forseti hringir.) að gera hér hlé á umræðu svo hægt sé að fara yfir þessa stóru útgjaldaliði.