145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir mikilli ánægju með að forseti hafi kallað hingað í hús hæstv. fjármálaráðherra svo hægt sé að setjast aðeins yfir þessi mál. Ég var farin að hafa áhyggjur af því að forseti ætlaði ekki að hafa neina stjórn á þinginu. Ég vil að tryggt verði í framhaldi þess fundar að þannig verði búið um hnútana að við í minni hlutanum fáum þær upplýsingar og þau gögn sem við þurfum til að geta tekið ígrundaða ákvörðun, t.d. um samkomulagið varðandi málefni fatlaðra. Sannarlega fögnum við því að slíkt samkomulag sé komið í hús en við viljum fá að sjá hvað í því felst. Þetta er stór og mikilvægur málaflokkur og við sættum okkur ekki við að okkur sé bara sagt að við eigum að vera ánægð, ekki frekar en í stöðugleikaframlaginu þar sem hrægömmunum voru líklega gefnir nokkur hundruð milljarðar. Við viljum gögn og upplýsingar til að taka sjálfstæða ákvörðun og ég treysti því að minn virðulegi forseti tryggi að við í minni hlutanum fáum tækifæri til þess.