145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða frekar dapurlegt. Auðvitað er mjög bagalegt að á ellefta tímanum í gærkvöldi skuli þingfundur hafa verið boðaður, þ.e. þessi morgunfundur hér. Flestir þingmenn eru með síma á sér og auðvitað gerum við ráð fyrir því að tölvupóstar berist en það er gjarnan sent SMS líka þannig að það hefði verið ágætt. Það er hins vegar rétt að starfsáætlun lauk í gær og margt breytist með því.

Það sem mig langaði til að velta hér upp er annars vegar það að við fengum tíu mínútur til að ræða tillögur meiri hlutans eftir að þær voru afgreiddar. Þá var málið lagt fram með bunka af breytingartillögum og rifið út. Því spyr ég: Hér erum við með frumvarp sem var lagt fram í gærkvöldi. Er búið að ræða það í þingflokkum stjórnarflokkana? Ef svo er, ef það er búið að ræða seðlabankafrumvarpið í þingflokkum stjórnarflokkanna, standa þeir auðvitað framar í vitneskju (Forseti hringir.) um málið en stór hluti þingmanna. Það er mjög ámælisvert. Ef ekki er búið að ræða þetta í þingflokkum stjórnarflokkanna er það líka háalvarlegt mál.