145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er talað um vandaða áætlanagerð, talað um að leggja fram vel undirbúið og ígrundað frumvarp til fjárlaga, og þá held ég að það hljóti að vera áhyggjuefni þegar við stöndum frammi fyrir því, eins og hér hefur verið rakið og er mjög alvarlegt mál, að stórir liðir, virkilega stórir liðir, koma inn dag eftir dag. Það gefur ástæðu til þess að Ríkisendurskoðun fari yfir málið. Hafa aðrir launaliðir verið vanmetnir? Hvernig er til dæmis með læknasamningana? Það er ekki nóg að segja að þetta verði tekið fyrir milli 2. og 3. umr. og að við getum bara látið gott heita þangað til. Það er fullt af röngum forsendum hér. Hv. formaður fjárlaganefndar gerir sjálfa sig að fórnarlambi, hún er búin að tala mikið um meðal annars Ríkisútvarpið og fara með staðlausa stafi og segir nefndarálitið prentað upp af því að hún vilji hafa það rétt. Hún hefur ekki beðist afsökunar á orðum sínum eða dregið til baka öll þau ósannindi sem hún er búin að viðhafa víða (Forseti hringir.) um þetta mál.

Virðulegi forseti. Það er algjörlega ótækt að láta umræðuna fara fram á þessum forsendum.