145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:59]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það má spyrja sig. Þetta eru fyrstu fjárlögin sem ég kem að þannig að ég hef ekkert til að bera saman við. Hins vegar virðist frumvarpið óreiðukennt, sérstaklega í ljósi þess að við erum enn að fá breytingartillögur upp á 1,2 milljarða sem hafa gleymst, og það segir náttúrlega að einhvers staðar er pottur brotinn. Ég hugsa að með nýjum lögum um opinber fjármál verði tekið á öllu svona og þá verði ferlið allt öðruvísi. Ég vona innilega að næst þegar ég tek þátt í fjárlagavinnunni, að ári, verði vinnubrögðin öðruvísi.

Hins vegar er alltaf gaman að pæla aðeins í því hvernig framtíð maður vill hafa. Ég vil náttúrlega hafa samfélag sem er aðeins opnara, frjálsara og jafnara að miklu leyti. Þegar við erum að tala um hvernig við viljum hafa fjárlögin okkar held ég að það yrði bragarbót að því að fá öll gögnin sem fyrst upp í hendurnar og fá þau á tölvulesanlegu formi, ekki bara á pappír eða pappírsígildi fyrir tölvur. Að sama skapi ætla ég að benda á að kannski er bara ekki nógu langt síðan hrunið varð þannig að kannski erum við bara ekkert komin upp úr því. Kannski voru yfirlýsingar hjá hæstv. fjármálaráðherra um að við værum að skila hallalausum rekstri ótímabærar. Kannski er betra að vanda sig og sætta sig við að hér varð kerfislægt hrun og kannski er núna ekki tíminn til að skila hallalausum fjárlögum. Kannski þurfum við að bíða og gera það að ári.