145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:50]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Almennt um skattalækkanirnar og hvernig þeim er fyrir komið er ljóst að þessi ríkisstjórn er ekki í tillögum sínum í skattamálum, hvort heldur í að afnema tolla eða færa einhverja flokka úr hærra virðisaukaskattsþrepi í lægra, að hugsa um þá sem lægst hafa launin frekar en í neinu öðru. Hún kom meira að segja inn í kjarasamningana síðastliðið vor og ég vil kannski orða það þannig að hún hafi smyglað þar inn stjórnarstefnu sinni í að lækka skatta mest á hæsta millitekjufólkið. Þeir sem eru í hæsta millitekjuþrepinu lækka mest í sköttum. Þessu kemur hún þarna inn og fær aðila vinnumarkaðarins með sér og þeir segja: Þetta er hluti af kjarasamningunum. Mér hefur aðeins fundist glimta í að það eigi ekkert að gagnrýna það vegna þess að þetta sé hluti af kjarasamningunum.

Ég hefði talið að það ætti að fara allt öðruvísi í þetta. Ég hefði talið að þeir hefðu átt að lækka tryggingagjaldið og að atvinnuvegirnir eigi sjálfir að standa undir þeim launahækkunum sem þeir standa fyrir en ekki smygla stjórnarstefnu af þessu tagi inn í kjarasamninga.