145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held ég taki áskorun hv. þingmanns Össurar Skarphéðinssonar sem hefur talað mikið um það að enginn væri fullvaxta þingmaður nema sjá hér sólarupprás þótt það sé nú svolítið seint kannski á þessum árstíma. En ég er mjög heit út af þessu máli og ég hef miklar áhyggjur af því. Ég hef vitnað aðeins í orð forsætisráðherra þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„… fjölmargir sem hafa mátt þola óeðlilegar skerðingar, t.d. eldri borgarar og öryrkjar, þurfa að fá bót sinna mála.

Ísland býr yfir nægum auðlindum, framleiðslugetu og þekkingu til að allir geti notið velferðar. Til þess þarf bara skynsemi við stjórn landsins.“

Ég held því miður að hæstv. forsætisráðherra sé ekki að sýna skynsemi við stjórn landsins, það kom fram hér í hádeginu í dag þegar við vorum að greiða atkvæði um hvort fara ætti í lengd þingfundar. Það er mjög mikilvægt að Landspítalinn fái þessa fjármuni, þó ekki sé nema launaliðurinn. Það er náttúrlega algjörlega ótækt að ætla sjúkrahúsinu sem (Forseti hringir.) ríkið gerði samninga við, kjarasamninga, að bæta þá ekki. Hvurs (Forseti hringir.) lags endemis vitleysa er þetta?