145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég er svo sem sammála því og ég ber þá von í brjósti að svokölluð Péturs Blöndals-nefnd fari að skila af sér einhverjum tillögum sem við getum tekið samræðu um, sem væru í þá átt að einfalda kerfið. Ég held að séu allir sammála um að það er of flókið. Það er auðvitað mjög bagalegt ef nánast enginn skilur það nema kannski einn eða tveir. Það er bagalegt að fólk, lífeyrisþegar, skuli lenda í því ár eftir ár með skattskýrsluna sína að verið sé að krefja það um eftirágreiðslu vegna þess að tekjur eru vanáætlaðar eða eitthvað slíkt eða vegna þess að það fær einhverja uppbót, eða það er eitthvað sem verður þess valdandi að afturvirk skerðing verður vegna þess að það gefur ekki upp réttar lífeyrissjóðstekjur í upphafi eða eitthvað slíkt. Nú á þetta allt að vera orðið rafrænt meira og minna. En þetta virðist gerast ár eftir ár.

Kerfið er klárlega of flókið og við þurfum að laga það. Það er ekki í lagi að maður skilji það ekki. Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra ýja í dag að því að fólk fari á örorkubætur af því að það nenni ekki að vinna, það lá í orðunum. En það er ekki eins og það sé einfalt að komast á örorkulífeyrisbætur. Það er heillangt ferli. Fólk er oft upp undir tvö ár að komast í gegnum allt það bákn og gengur í gegnum mikla þolraunir þangað til það fær úrskurð í málum sínum. Sumir fá endurhæfingarlífeyri, eitthvað slíkt, á meðan þeir eru að bíða, en aðrir lenda í því líka að vera tekjulausir í einhvern tíma. Það er því mjög margt sem við þurfum að laga. Ég vona að þetta frumvarp taki að einhverju leyti á því. En viðhorfin þurfa líka að breytast gagnvart þessu fólki. Það má ekki dæma heilan hóp af fólki fyrir einhverja örfáa sauði, ekki (Forseti hringir.) frekar en að segja að það sé sami rassinn (Forseti hringir.) undir okkur þingmönnum öllum, því að svo er nú ekki.