145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna hitti hv. þingmaður naglann á höfuðið vegna þess að hvatinn felst ekki í því hvort fólk fær 150 þús. kr. eða 220 þús. kr. heldur felst hann í því hvort það hefur getu til að taka að sér einstaka verkefni. Þetta er ofboðslega fjölbreyttur hópur. Sumir geta unnið mjög sérhæfð störf eða ákveðna tegund starfa og geta þá verið í henni til lengri tíma. Svo hafa aðrir mjög sveiflukennda getu, eru til dæmis með gigt sem er háð veðurfari og eiga erfiðara með að starfa á veturna en geti unnið á sumrin o.s.frv. Þetta eru svo fjölbreyttir hópar en vinnumarkaðurinn er hins vegar ekki alveg í takt við þetta fólk. Þess vegna er miklu eðlilegra að hvatinn felist í því að fólk geti sótt sér viðbótartekjur með því að taka þátt í störfum árstíðarbundið eftir getu þess og heilsu. Þeim megin á hvatinn að liggja. Gleymum því ekki að það skilar samfélaginu tekjum og framlegð að fá að njóta krafta þessa fólks. Við munum aldrei tapa á því, eins og mér heyrist á stjórnarmeirihlutanum, þótt fólk fái að bæta við sig sveiflukenndum atvinnutekjum vegna þess að samfélagið fær hag af því og ríkissjóður fær skatt til baka, við skulum ekki gleyma því.

Mér finnst í allri þessari umræðu leiðinlegt hvernig menn mála þetta upp sem einhvers konar bótaþegaumræðu, eins og þessi hópur sé einhvers konar byrði á samfélagi okkar. (Forseti hringir.) Fólk sem nýtur ellilauna eða örorkulauna er alls ekki byrði á samfélagi okkar heldur er það þvert á móti velkomið. (Forseti hringir.) Við eigum að sýna því að það séu alls ekki byrði heldur mikilvægur hluti af samfélaginu.