145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Stjórnarliðar virðist ætla að láta þetta snúast um tímafjölda. Það er allt í lagi. Það má kalla til forsvarsmenn Heimsmetabókar Guinness ef það er það sem stjórnarliðar vilja helst.

Mér er full alvara þegar ég segi að þeir geti ekki skýlt sér á bak við það hvort við tölum í 50 tíma eða 100 tíma. Það sem úti er og bíður okkar eru verkefni í samfélaginu, m.a. er varða eldri borgara og öryrkja. Ég er sannfærð um að þeir standa með okkur og hvetja okkur til að tala í þúsund tíma ef því er að skipta, sem og forsvarsmenn Landspítalans og annarra stofnana sem hér hafa verið margræddar, sem hafa komið á fund fjárlaganefndar og ítrekað sagt að þetta gangi ekki upp.

Við getum ekki rekið samfélagið með þessum hætti, það er alveg ljóst. Samt ætla stjórnarliðar að reyna að snúa þessu upp í tímatalningu. Þeir halda að þeir geti breitt yfir (Forseti hringir.) eigin dellu og lélegan undirbúning með þessum hætti. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, það er ekki bjóðandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)