145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvað var hv. þingmaður eiginlega að segja í ræðu sinni áðan? Þarf hann ekki að skýra það svolítið betur? Hv. þingmaður hefur manna mest talað um hag aldraðra og öryrkja. Hann sagðist vera stoltur af því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði skilað til þjóðarinnar. Er hann stoltur af því að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa aldraðir og öryrkjar fengið hækkun sem eftir skatta er 10 þúsundkall. Er hann stoltur af því? Á sama tíma og hv. þingmaður segist stoltur af því að ríkisstjórnin hafi skilað til þjóðarinnar 122 þús. milljónum, getur hann þá barið sér á brjóst og sagst vera stoltur af því að hinn aldraði og öryrkinn fái 10 þúsundkall?

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að aldraðir væru afar illa settir og það þyrfti að bæta kjör þeirra. Hann vildi koma að því. Hann eins og ég þekkir hina helgu bók sem segir að ræða þín skuli vera já, já og nei, nei og ég spyr hv. (Forseti hringir.) þingmann: Mun hann styðja tillögu sem fram kemur um að öryrkjar og aldraðir fái afturvirka hækkun til 1. maí?