145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:15]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einkennilegt ef ég er eini þingmaðurinn í meiri hlutanum sem stend með ykkur að þá sé hjólað í hann. Maður verður víst að þola það líka. Ég veit ekki betur en að við höfum sett skatta á kröfuhafa og bankana og útgerðina (Gripið fram í.) og veiðileyfagjöldin hafa aldrei verið hærri en þau eru í dag. Þau voru ekki svo há á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Ég held að við séum að ganga mjög hart fram í því að skattleggja útgerðina. Ég held að umræðan um kjör ellilífeyrisþega og örorkuþega þurfi ekki að fara inn á þessar brautir vegna þess að við höfum virkilega forgangsraðað fyrir sjúkrahúsin, fyrir Landspítalann og fyrir heilbrigðisþjónustu í landinu. Það mun enginn geta tekið það frá okkur. Tugir milljarða hafa farið í heilbrigðiskerfið og menntakerfið á síðustu árum og við erum á réttri leið í því eins og flestu öðru.