145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér hefur alltaf fundist farsælast að setjast niður og reyna að semja um lyktir mála á þessum tíma og hef ég oft komið að því. Ég vil því taka undir það sem hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum um að þessum fundi verði frestað þannig að fjárlaganefndin öll geti komið saman til fundar og farið að athuga hvort eitthvað svona er í pípunum, að lagfæra það sem mestar deilur eru um, þ.e. afturvirkar hækkanir til aldraðra og öryrkja. Mér finnst að margir stjórnarliðar séu með aumt í maganum út af þessari árás á aldraða og öryrkja. Ef það er rétt sem ég hef heyrt að meiri hluti fjárlaganefndar hafi verið á fundi núna í hádeginu til þess að ræða þau mál mundi ég mjög gjarnan vilja spyrja þá tvo fulltrúa Framsóknarflokksins sem hér sitja, formann þingflokks framsóknarmanna og hv. þm. Pál Jóhann Pálsson, hvort sá fundur hafi verið haldinn og hvort menn séu að vinna þetta í þessa átt. Yfirlýsing í þá veru mundi auðvelda okkur þingstörfin mjög.

Jafnframt mundi ég vilja heyra í fulltrúum (Forseti hringir.) í velferðarnefnd eins og hv. þingmönnum Elsu Láru Arnardóttur og Silju Dögg Gunnarsdóttur sem sitja hér í salnum, heyra í þeim(Forseti hringir.) varðandi þessa umræðu.

Að lokum vil ég segja það, virðulegi forseti, með vinsamlegri beiðni, að ég er næstur á mælendaskrá og ég óska eftir því að ráðherra félagsmála, Eygló Harðardóttir, (Forseti hringir.) verði stödd hér vegna þess að ég hef í hyggju að beina til hennar þremur, fjórum spurningum út af því máli sem veldur hvað mestum deilum í þinginu. Ég óska eftir að ráðherra verði viðstaddur þá ræðu.

(Forseti (ÞórE): Forseti meðtekur þá bón.)