145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það var ánægjulegt að heyra í hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins og gott að heyra að einhver mál eru komin í farvatnið. Það er nefnilega þannig að umræða skilar sér til árangurs. Ég hef trú á að það gerist að einhverju leyti. Það er líka alveg rétt að það að setjast niður og tala saman þýðir ekki að gengið verði að kröfum stjórnarandstöðunnar að fullu. Það erum við fullmeðvituð um. En það þarf að tala saman. Það er bara eðli þess tíma sem við stöndum frammi fyrir á hverju ári er varðar fjárlög og hefur verið því miður í allt of mörg ár eða áratugi, en svoleiðis er það.

Ég minni hv. þingmenn á þann póst sem okkur berst frá öldruðum og öryrkjum sem tilkynna að þeir ætli að standa fyrir utan þinghúsið daglega þar til þingi lýkur þar sem þeir fara fram á að hækkunin sem þeir telja sig eiga inni á þessu ári sem er að líða, sem við þurfum þá að ræða í sambandi við fjáraukalagafrumvarpið, verði að lágmarki í samræmi við krónutöluhækkun lægstu launa í maí síðastliðnum. Um það snýst málið. Það er eitt af því sem við erum hér (Forseti hringir.) að tala um. Hvort fólk vill kalla það málþóf eða annað er mér eiginlega bara alveg sama um. Við erum að reyna að ná fram ákveðnum umbótum á fjárlagafrumvarpinu og ég held að það sé eitthvað að hreyfast.