145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi eftirlitsstofnanirnar hef ég í ljósi ummæla forustufólks fjárlaganefndar haft áhyggjur af sérstökum saksóknara, ríkissaksóknara og þeim aðilum, Jafnréttisstofu. Það er margt sem maður upplifir sem ákveðinn þyrni í augum fólks. Ég er vissulega að ætla þeim eitthvað. En það hefur verið talað þannig um þennan eftirlitsiðnað, eins og hv. þingmaður nefndi. Þetta eru auðvitað allir sem hafa eftirlit með einhverju. Það hefur verið talað um að þetta hafi bólgnað út. Að mínu viti átti þetta allt rétt á sér og var bent á það í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Varðandi RÚV mundi ég hafa mestar áhyggjur af því að landsbyggðin yrði enn verr úti og ekki yrði hægt að halda áfram að byggja upp starf á landsbyggðinni aftur, eins og ég veit að útvarpsstjóri hafði mikinn áhuga á. Ég hef áhyggjur af barnaefninu. Hann hafði mikinn áhuga á að byggja upp og útbúa íslenskt og gott barnaefni, hafði mikinn metnað til þess, en það kostar auðvitað peninga. Þetta er dýrt en metnaðarfullt og því á RÚV að sinna. Þegar kemur að íslensku leiknu efni hefur RÚV algerlega verið í fararbroddi í áratugi. Ég hef áhyggjur af því sem og því að allir íslenskir tónlistarmenn, meira og minna, sem hafa viljað komast að hjá Ríkisútvarpinu hafa fengið þar aðgengi vegna þess að þetta er Ríkisútvarpið okkar allra. Heilbrigð samkeppni á að sjálfsögðu að vera til staðar og ég styð aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar til þess að lifa og við getum alveg tekið umræðu um auglýsingamarkaðinn og allt það. En þetta kostar allt peninga og lýðræðið kostar peninga. RÚV er hluti af því.